Biblían er trúarrit kristinna manna og þeirra á meðal er hún gjarnan nefnd orð Guðs. Það vilja margir skilja þannig, að Biblían sé öll heilagur sannleikur og í henni verði menn annaðhvort að trúa öllu eða engu.
Oft gleymist að Biblían er ekki eitt rit. Hún er safn margra, ritsafn. Rit Biblíunnar eru af ýmsum tegundum. Þau urðu til á mjög löngum tíma, í mörgum ólíkum aðstæðum og voru skrifuð af ótalmörgum höfundum.

Í Biblíunni finnum við allskonar hugmyndir um lífið og tilveruna. Þar er engin ein guðfræði, enginn einn menningarheimur og ekkert eitt sögusvið. Biblían talar ekki einni raust heldur heyrast þar margar ólíkar raddir.

Engu að síður halda margir því fram að ekki sé nema um tvennt að ræða varðandi Biblíuna. Annaðhvort trúi menn öllu eða engu. Þessu er bæði haldið fram af sumum kristnum mönnum, svonefndum bókstafstrúarmönnum, og ennfremur af þeim sem vilja endilega sýna fram á fáránleika Biblíunnar.

Auðvitað þurfum við ekki að trúa öllu sem í Biblíunni stendur. Hún getur hæglega staðið undir nafni sem trúarrit og orð Guðs án þess að menn líti þannig á að hver einasti stafur í henni sé borðleggjandi sannleikur.

Trúaðir menn lesa Biblíuna og sumt í henni talar til þeirra og annað ekki. Sumt þar finnst þeim mikilvægara en annað. Sumt á við nú á dögum. Annað er úrelt. Sumt nærir trúna og annað ekki.

Að sjálfsögðu túlka menn það sem þeir lesa í Biblíunni. Menn túlka yfirleitt allt sem þeir lesa. Fréttir blaðanna eru túlkaðar og þar sé ég ekkert endilega það sama og þú. Meira að segja jafn óvéfengjanlegir hlutir og hæstaréttardómar eru túlkaðir.

Þeir sem heimta að Biblíunni verði að trúa allri láta yfirleitt ósagt hvaða Biblíu eigi að trúa þannig. Er það sú íslenska? Biblían var nefnilega ekki skrifuð á íslensku en er til í íslenskri þýðingu. Við þýðingu Biblíunnar gilda sömu lögmál og þegar önnur rit eru þýdd. Þar fer fram ákveðin túlkun. Það sem stendur í íslensku þýðingunni er ekki nákvæmlega það sem stóð í frumútgáfunni.

Kristnir menn eru ekkert sammála um það sem í Biblíunni stendur. Þeir þurfa heldur ekkert að vera það. Kristnir menn mega gjarnan vera ósammála og ólíkir. Það sama gildir um hindúa eða fólk af öðrum trúarbrögðum. Trúleysingjar þurfa ekki að vera á einu máli um alla skapaða hluti. Það er kannski helst í alræðismenningu, hvort sem hún er trúarleg eða hugmyndafræðileg, sem gerð er krafa um að allir hugsi eins.

Mér þykir vænt um Biblíuna. Hún er uppspretta helstu hugmynda minna um Guð. Þangað sæki ég ýmsa speki um lífið og tilveruna.
Og þar les ég söguna um Jesú og þess vegna er Biblían mér heilög.

sr. Svavar Alfreð Jónsson