Aðalfundur Hins íslenska biblíufélags var haldinn í Fella- og Hólakirkju mánudaginn 25. apríl 2016. Það voru þrír stjórnarmenn sem gáfu ekki kost á sér til lengri stjórnarsetu, sr. Þórhildur Ólafs prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi sem setið hefði í stjórn H.Í.B. í fjörutíu ár, Stefán Einar Stefánsson guðfræðingur og blaðamaður, sem verið hefði stjórnarmaður í átta ár og Dögg Harðardóttir en hún hefði verið í stjórninni í fjögur ár.  Færði forseti fráfarandi stjórnarmönnum þakkir fyrir störfin í þágu Hins íslenska biblíufélags. Í stað sr. Þórhildar Ólafs, sem setið hafði í fjörutíu ár í stjórn H.í.B . eins og áður hafði komið fram, stakk stjórnin upp á Grétari Halldóri Gunnarssyni guðfræðingi og starfsmanni Kjalarnessprófastsdæmis.  Grétar er doktor frá Edinborgarháskóla og formaður kyrrðarbænasamtakanna.  Í stað Stefáns Einars Stefánssonar, sem setið hafði í stjórn í átta ár var stungið upp á sr. Guðna Má Harðarsyni.  Sr. Guðni Már er prestur við Lindakirkju í Kópavogi og rekur auk þess fyrirtækið Skyrgám.  Í stað Daggar Harðardóttur var stungið upp á Áslaugu Björgvinsdóttur lögmanni, en hún starfar hjá lögmannastofunni Logosi.  Tillögurnar voru samþykktar með öflugu lófataki fundarfólks.
Vilhjálmur Bjarnason sem verið hefur skoðunarmaður reikninga lauk sínu kjörtímabili en Jóhann Björnsson var kosinn í hans stað. Pétur Þorsteinsson sem kjörinn var skoðunarmaður á aðalfundi 2015 gaf kost á sér áfram og eru því kjörnir skoðunarmenn Pétur Þorsteinsson og Jóhann Björnsson.
Á eftirfarandi myndum má sjá forseta Biblíufélagsins frú Agnesi M. Sigurðardóttur með Dögg Harðardóttur og sr. Þórhildi Ólafs, með nýkjörnum fulltrúum stjórnarinnar, Áslaugu Björgvinsdóttir, sr. Guðna Má Harðarsyni og Grétari Halldóri Gunnarssyni og að lokum ásamt Vilhjálmi Bjarnasyni og Pétri Þorsteinssyni.