Grein eftir dr.Gunnlaug A. Jónsson prófessor, sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 26. mars 2016

„Eins og demantarnir sem hann seldi var Shlomo frábær maður. Hann var

mikill mannþekkjari og var afar minningur, kunni m.a. stóra hluta lögmálsins utanbókar.“ Þessi voru ummæli Veru Muravitz, sem er framkvæmdastjóri alþjóðasamskipta við Bar-Ilan háskólann í Ramat Gan í Ísrael er hún tjáði sig um andlát Shlomo Moussaieff sl. sumar. Shlomo Moussaieff (1923-2015), tengdafaðir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, var heiðursdoktor frá þeim háskóla, en skólann hafði hann m.a. styrkt með því að gefa honum allt hið mikla kabbalabókasafn sitt og er þar nú rekin stofnun í kabbalafræðum, gyðinglegum dulúðarfræðum, kennd við Moussaieff. Þangað kom höfundur þessa pistils í ársbyrjun 2008, fyrir milligöngu ofannefndrar Veru Muravitz, skoðaði kabbala-safnið, fékk leiðsögn um hina virtu fornleifafræðistofnun þar, hélt fyrirlestur við háskólann og átti viðræður við kunnustu fræðimenn skólans á sviði rannsókna hinna hebresku ritninga. Dvaldi jafnframt nokkra daga með Shlomo Moussaieff í Herzelia þar sem hann bjó og fékk

að skoða safn hans að vild og ræða við hann um einstaka muni þess og gripi.

Í nóvember sl. var þess getið í fjölmiðlum víða um heim að fundist hefði

í opinberum uppgreftri í hlíðum musterishæðarinnar í Jerúsalem innsigli með nafni Hiskía Júdakonungs, sem var við völd í Júdaríki á miklu umbrotaskeiði í lífi þjóðarinnar, um 715-687 f.Kr. Þótti sá fundur hafa mikið sagnfræðilegt gildi. Fæstir fjöldmiðlanna létu þess getið að hliðstætt innsigli var þegar til í safni því sem forngripasafnarinn Shlomo Moussaieff hafði látið eftir sig. Munurinnn var sá að innsiglið í safni Moussaieff var ekki úr opinberum uppgreftri heldur keypt á frjálsum markaði. Kunnir fræðimenn hafa þó lýst því yfir að það sé upprunalegt.  Það var helsta ástríða Shlomo Moussaieff í lífinu að safna fornmunum,

ekki síst áletruðum gripum sem tengdust hinum biblíulega tíma. Honum var það kappsmál að fornleifafræðin gæti lagt sitt af mörkum til að sýna fram á sannfræði þeirra sögulegu vitnisburða sem Biblían greinir frá. Þar var hann sem Gyðingur fyrst og fremst með Gamla testamentið (þ.e. hinar hebresku ritningar) í huga. En hann bar jafnframt mikla

virðingu fyrir kristinni trú og taldi að margir fornmuna í eigu hans bæru það með sér hvernig hin kristna trú væri vaxin upp úr gyðingdómi. Almennt er talið að Shlomo Moussaieff hafi átt stærsta einkasafn í heimi á sviði biblíulegra fornmuna. Gripirnir skiptu þúsundum og erfitt mun reynast að meta þá til fjár.  Ég kynntist Shlomo Moussaieff vel, hitti hann nokkrum sinnum á alþjóðlegum ráðstefnum, í Lissabon, Róm og London, heimsótti hann bæði í London og í Ísrael, í tvígang ásamt Ólafi Egilsssyni, stjórnarmanni í Hinu íslenska biblíufélagi og fyrrverandi sendiherra, og ræddi oft við hann í síma. Moussaieff var afar örlátur á tíma sinn og honum var mjög umhugað um að hið mikla forngripasafn hans kæmi að sem mestum notum, og gerði mikið til að fræðimenn, bæði biblíu- og fornleifafræðingar, gætu unnið að rannsóknum á einstökum gripum úr safninu. Hann stóð fyrir útgáfu á niðurstöðum

slíkra rannsókna í afar vönduðum bókum, kostaði og stóð fyrir málþingum á fræðasviðinu, m.a. málstofum á alþjóðlegum þingum Society of Biblical Literature. Það var eins og að ganga inn í ævintýraveröld hins forna heims að koma inn á heimili hans, hvort heldur var í íbúð hans við Grosvenor-torg í London eða 14.hæðina á Daniel-hótelinu í Herzelia í Ísrael, en þar var aðalheimili hans.

Fornmunir úr Landinu helga frá biblíulegum tímum á öllum veggjum, í glerskápum, hillum og kössum, í mörgum herbergjum og stöðugt bættist í safnið. Þar ægði öllu saman: fagurlega skreyttum vösum, olíulömpum, styttum, trúartáknum og líkneskjum af ýmsu tagi, innsiglum, mósaíkmyndum, leirbrotum með áletrunum o.s.frv. Óneitanlega fannst

gestum hans að þarna svifi andi hins biblíulega tíma yfir vötnum. Snjall sölumaður skartgripa Shlomo hafði auðgast mjög á skartgripa- og demantasölu og reyndist mjög snjall á því sviði.

Demantaverslanirnar í London og Sviss sem bera nafn hans eru heimsþekktar en þangað gera sér ekki ferð aðrir en þeir auðjöfrar, gjarnan úr olíuheiminum. Shlomo sagðist þó í raun ekki mjög áhugasamur um viðskipti sem slík en þau væru honum mikilvæg vegna þess að auðæfin gerðu honum kleift að sinna því sem hugur hans stóð til, öllu öðru fremur, þ.e. Ritningunni.

Shlomo sagði einhverju sinni að fornmunirnir sem hann safnaði gegndu tvíþættu hlutverki. Í fyrsta lagi hefðu hlutirnir einfaldlega fagurfræðilegt gildi. En meira máli skipti að þeir væru lyklar að öðrum raunveruleika, þeir lykju upp liðinni tíð. Má sannarlega taka undir þau orð.  Á 80 ára afmæli Shlomo Moussaieffs 6. september 2003 var gefið út veglegt afmælisrit til heiðurs honum. Samanstóð það af ritgerðum heimsþekktra biblíu- og fornleifafræðinga á því fræðasviði sem honum er hugleiknast. Flestar greinanna fjölluðu um fornmuni úr eigu dr. Moussaieff.

Dr. Shlomo Moussaieff var dæmi um auðmann sem ekki hafði hefðbundna skólagöngu að baki en aflaði sér gríðarlegrar þekkingar á fræðasviði sem fangaði áhuga hans, talaði bæði arabísku og hebresku reiprennandi og lét fræðasviðið ríkulega njóta auðæfa sinna. Þannig mun nú fyrirhugað að stofnað verði safn um forngripi hans svo allur almenningur geti átt aðgang að forngripunum sem veita afar forvitnilega innsýn í veröld sem var, ekki síst hinn biblíulega tíma.