Hún horfði í augu mín, skelegg og klár kona á tíræðis aldri, sagði síðan blátt áfram: „ Ég kann alla Passíusálmana utan að“.  Þetta var í helgistund í félagsmiðstöðinni Gerðubergi, þar sem hópur fólks var samankominn til að lesa í Biblíunni og ræða um lífið og Guð. Ég hváði og trúði varla mínum eigin eyrum. Mig langaði til að fá að reyna á sannleikskorn þessarar fullyrðingar og tók að hlýða henni yfir sálmana! Og viti menn, hún kunni þá alla utan að.

Á mínum vinnustað lesum við Passíusálmana á föstunni. Þannig undirbúum við okkur undir þá atburði sem gerðust á bænadögunum og um páskana. Passíusálmarnir eru ótrúleg smíð og eftir því sem ég eldist kann ég betur að meta þá. Mér finnst tilheyra að hlusta og lesa Passíusálmana á föstunni. Um pínu Jesú og þjáningu, um vonleysi og vanmátt lærisveina hans. En sagan endaði ekki þar.  Á páskadag gerðist undrið.

Við sem aðhyllumst kristna trú tökum þess vegna fagnandi á móti páskunum. Páskar eru hátíð upprisunnar og án upprisu Jesú Krists væri engin kristin trú. Á páskunum fögnum við lífinu, fyrirheit Guðs rættist, lífið sigraði dauðann. Vonleysið hverfur og vonin tekur völd.
Upprisa Jesú minnir okkur á að það er alltaf von í öllum aðstæðum lífs okkar. Þegar allt er svart og mótlæti hefur bugað okkur, öll von virðist vera úti og engin lausn í sjónmáli þá er okkur gefin von. Líf okkar er fullt af andstæðum og oft á lífsleiðinni stöndum við frammi fyrir erfiðleikum og jafnvel átökum. Atburðir bænadaga og páska birta okkur vald, ofbeldi og háðung. Því er ekki svarað í sömu mynt heldur er áherslan lögð á kærleikann, vonina og kraft lífsins. Jesús birtist okkur í lífinu, hann birtist í fólki sem hjálpar, styður og huggar. Hann birtist okkur í gleðistundum, í kraftaverkunum þegar við fögnum fæðingu barns í þennan heim eða gleðjumst með brúðhjónum á þeirra degi. Hann birtist okkur á sorgar- og gleðistundum. Hann sjálfur sagðist vera upprisan og lífið og veita okkur samfylgd.

Passíusálmarnir segja okkur frá þjáningunni, frá sorginni og óttanum en einnig trúarfullvisunni. Þess vegna er svo dásamlegt að fagna á páskadagsmorgni upprisu Jesú Krists. Við eigum von og von er ekki bara eitthvað sem er framundan, von er stefna.

Gleðilega Páska!
Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags.