Nýjustu tölur Sameinuðu biblíufélaganna (United Bible Societies) um sölu Biblíunnar hafa verið birtar.
Þau 147 biblíufélög sem eru innan raða USB hafa dreift 34 milljónum Biblía víða um heim. Markmið félaganna er að Biblían sé aðgengileg á þeirra eigin tungu, hún sé lesin og innihald hennar þekkt. Þetta er í fyrsta skipti sem fjöldi seldra Biblía og þeirra sem dreift er fer yfir 34 milljónir eintaka. Þar fyrir utan hefur 13 milljónum eintaka af Nýja testamentinu og 418 milljón af einstökum hlutum Biblíunnar verið dreift.

Í Evrópu og Mið- Austurlöndum hefur dreifing Biblíunnar eða einhverjum hluta hennar aukist mjög, eða næstum 50% fleiri en árið 2014. Ástæðan er aðallega sú að ákveðið var að dreifa Biblíum í löndum þar sem stríð geisar eða aðrir erfiðleikar steðja að. Athygli vekur aukning í Sýrlandi, Líbanon, Jórdaníu og Tyrklandi, en í þessum löndum jókst dreifing Biblíunnar um 88% milli áranna 2014 til 2015. Biblíuhefti eða biblíudagatöl er auðvelt að flytja og hafa sjálfboðaliðar dreift þeim víða.

„Hungur eftir orði Guðs hefur aukist í kjölfar óeirða. Þetta hafa verið ár áfalla, fólk er í sorg. Í vonleysinu sækir fólk í traust og uppörvun í Biblíuna“, segir starfsmaður Biblíufélagsins í Sýrlandi.

Í Brasilíu hefur yfir 44 milljónum eintaka Biblíunnar verið dreift frá árinu 2010, sem er næstum einn fjórði af íbúatölunni. Í landinu er einnig ein stærsta prentsmiðja heims sem prentar Biblíur.

„Okkar biblíufélag sinnir mikið félagslegri hjálp fyrir hópa sem á þurfa að halda og fyrir marga er boðskapur Biblíunnar eins og ljós í myrkri sem flytur þeim von“, segir Rudi Zimmer hjá Biblíufélaginu í Brasilíu.

Talið er að örasta útbreiðslan á Biblíum sé nú í Norður- og Suður- Ameríku, en á árinu 2015 var tíu Biblíum eða biblíuritum dreift á hverri sekúndu. Þrátt fyrir að margt fólk í dag geti lesið Biblíuna á sínu móðurmáli, Biblían hefur verið þýdd á 563 tungumál, þá eru ennþá 497 milljónir manna sem ekki eiga Biblíuna á sínu móðurmáli. Talið er að til séu í heiminum 6887 tungumál.

Stuðningur við alþjóðlegt þýðingarstarf og dreifingu Biblía:

reikn. 0101 26 3555, kt. 620169-7739
Hér er hægt að lesa skýrsluna http://www.bibelsällskapet.se/uploads/File/Bibelspridning%202015.pdf