Í tilefni af 70 ára afmæli Karls Gústafs XVI. Svíakonungs, stóð Biblíufélagið í Svíþjóð fyrir söfnun til stuðnings Biblíuævintýrinu sem er fræðsluefni fyrir grunnskólabörn. Markmiðið var að öll börn í fjórða og fimmta bekk fengju gefins biblíufræðslu.
Karl Gústaf XVI. Svíakonungur er verndari sænska biblíufélagsins. Það er hefð sem hefur staðið yfir frá árinu 1815, þegar Hið sænska biblíufélag var stofnað.
Markmið þessarar söfnunar er að komandi kynslóðir fái að kynnast efni Biblíunnar í gegnum Biblíuævintýrið en sú fræðsla er sett upp á lifandi, skemmtilegan hátt sem hrífur börnin.
Í fjórða bekk læra börnin um Gamla testamentið og í fimmta bekk um Nýja testamentið.
Í fræðsluefninu eru börnin látin nota öll sín skilningarvit. Í gegnum leikræna tjáningu, hreyfingar, spil, rapp, rím, töfra og lykilorð verður til ákveðin þula sem börnin fara með og sögurnar úr Biblíunni öðlast líf. Kennslustofan verður að landakorti, stór Biblía með litlum öskjum sýna á táknrænan hátt hvaða sögur eru í Biblíunni. Börnunum þykir gaman að upplifa sögurnar með þessum hætti. Boðið er upp á Biblíuævintýrið sem kennsluefni víðs vegar um Svíþjóð.