Eftirfarandi grein er eftir sr. Úlfar Guðmundsson fv. prófast og var birt í Morgunblaðinu í lok janúar.

Biblíudagur – Biblían bendir á Jesú Krist

Þegar ég hugsa til Biblíunnar þá hef ég áhyggjur. Það hryggir mig að ráðafólk skóla í Reykjavík – höfuðborg okkar — telji Biblíuna og jafnvel Nýja testamentið vera varasamt börnum.  Mín hjartans sannfæring er sú að Jesús Kristur sé hverri nýrri kynslóð holl fyrirmynd og akkeri í ólgusjó lífsins með þess hröðu breytingum.
Einmitt á slíkum tímum þarf grunnurinn að vera traustur og þar er Jesús  bjargið sem byggja má á svo vel fari.  Ég fæ engan veginn skilið hvernig fólk getur talið Jesú Krist varasaman, svo ótrúlega kærleiksríkur sem hann er í öllu.  Ég sagði stundum við fermingarbörnin að þau skyldu bara kynnast Jesú — og því sem hann kenndi og gerði – og þá finndu þau síðan sjálf hvað það væri gott og farsælt
En Biblían er margslungin bók og vera má að fjölbreytni hennar rugli hugsun fólks, það átti sig ekki á kjarnanum í kristnum boðskap hennar.  Þó er svo margt í henni skýrt og á fallegu máli. Lestur hennar auðgar bæði líf og tungu
Boðskapur Jesú
Það er sagt frá því í Lúkasarguðspjalli, 4. kapítula, að Jesús fór að vanda sínum í samkunduna, stóð þar upp og las úr bók Jesaja: „Andi Drottins er yfir mér … Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“
Jesús markar djúp þáttaskil í mannkynssögunni. Því hefur verið líkt við fræ sem sáð er og byrjar að vaxa og ber ávöxt.  Þekking á Jesú Kristi er nauðsynleg.  Það þarf að sá fræinu svo hver einstaklingur geti vaxið og dafnað í honum.   Nú þegar skólarnir hafa brugðist þá verða heimilin að bregðast við og hjálpa kirkjunni til þess að iðka og varðveita þekkinguna á Jesú.  Sem betur fer skilja margir foreldrar þetta og hafa brugðist við með sínum börnum.
Það eru mörg ár síðan sumir foreldar voru gerðir óöruggir í trúaruppeldi sínu jafvel af menntamönnum.  Nokkuð var um að barnaskírn væri frestað og hugsunin sú að barnið ætti að velja sér sjálft trú þegar það yrði fullvaxið.  Ég hef sagt að þessi hugsun sé álíka viturleg og að einstaklingur ætti að velja sér móðurmál þegar hann væri fullvaxinn. Þeir sem læra snemma um Guð og Jesú Krist, kynnast trú og leiðsögn Biblíunnar, verða sterkari seinna í lífinu.
Rík arfleifð
Rík arfleifð – mikil verðmæti — eru varðveitt í Biblíunni, undirstaða trúar okkar og þess lífs sem kirkjan boðar.  Hvað segir þá þessi bók?  Margir halda að þeir viti ekki mikið um innihaldið — en vita þó yfirleitt meira en þeir halda.  En auðvitað er mikil vanþekking og oft kemur fyrir að menn telji innihaldið vera eitthvað annað en það í raun er.  Samt hefur þessi bók lengi verið metsölubók heimsins og hún til á flestum heimilum. Kannske er ekki lesið í henni nógu oft, nógu vel af nógu mörgum.
Biblían er hluti af menningu okkar og lífi, stærri hluti en við gerum okkur oft grein fyrir.  Orð og orðtök, nöfn og setningar lifa á okkar vörum, í hversdagslegum umræðum manna á meðal  oft án þess að menn hafi minnstu hugmynd um, hvaðan tungutak þeirra er runnið.  Enginn er í raun menntaður maður nema hann viti einhver deili á Biblíunni.  Hvort sem hann er trúaður eða ekki.
Fólk þarf að kunna að fletta upp í bókinni og átta sig á að hún er í raun margar ólíkar bækur bundnar í eina.  Ritunartími bókanna er gjarna talinn yfir 1300 ár.  Tækjum við sýnishorn liðinna 13 alda af hverju sem er yrði það mislitt safn.  Og svo er um Biblíuna, hún rúmar ólíka tíma og viðhorf innan sinna spjalda. Því þarf oft íhugun og leiðsögn til skilnings á henni.
Dýrmæt uppörvun og leiðsögn
Biblían geymir frumstæðar sögur af vörum fornra manna, sögulegar frásagnir og heimildir, siðferðilegar leiðbeiningar og lög, dæmisögur og ljóð, sýnir, andlegar upplifanir og persónuleg sendibréf.  Við eigum ekki að nota nein sérstök gleraugu á biblíuna, en leitast við að nálgast hana með tilliti til þess hvernig hún er til orðin, af innsæi og skilningi. Þá munum við skilja hvað átt er við þegar sagt er að hún sé Guðs orð.
Orð Guðs lýkst gjarna skyndilega upp fyrir einstaklingi og verður lifandi.  Kannski er það á stund örvæntingar, eða ósköp vanalegri stund eða engri sérstakri stund, heldur smám saman. En sá sem fyrir því verður er ekki eins og hann áður var.  Hann er eins og nýr maður.  “Sjá ég gjöri alla hluti nýja” segir Jesús Kristur.  Biblían opnar augu mannanna fyrir Jesú Kristi.  Hann hafði staðið upp og lesið í samkunduhúsinu.  Hann kunni sína ritningu og vitnaði oft til hennar. Er hann hafði lokið lestrinum vafði hann saman bókina og allir í samkunduhúsinu störðu á hann.  Og þannig mun það verða, þegar Biblían hefur verið lesin og skilin.  Þá stendur Jesús eftir skýr fyrir sjónum.
Biblíudagurinn er – eins og reyndar allir dagar — góður dagur til að taka Biblíuna fram og íhuga hið óviðjafnanlega efni hennar sem að framan er vikið að. Nýjasta þýðingin á íslensku frá árinu 2007, útgefin af Hinu íslenska biblíufélagi og JPV forlagi, bendir á marga ritningarstaði sem verið hafa Íslendingum hjartfólgnir og dýrmæt uppörvun og leiðsögn í gegnum tíðina.