Það hefur verið einstaklega fróðlegt, uppörvandi og hvetjandi að fylgjast með og taka þátt í afmælisári biblíufélagsins.  Þetta merkilega og hljóðláta félag er 200 ára. Boðið var upp á fjölda viðburða og ótrúlega fjölbreytt efni, sem gaf innsýn inn í það starf sem félagið hefur staðið fyrir í þessi 200 ár.  Dagskráin sem var metnaðarfull og einstaklega vönduð í alla staði bauð upp málstofur, Biblíusýningar, myndlistarsýningar, tónleika og Viðeyjarbiblía gefin út í stafrænu formi svo fátt eitt sé nefnt.

Markmið biblíufélagsins er útbreiðsla Biblíunnar og stuðla að lestri hennar og notkun. Það markmið er það sama í dag og var þegar félagið var stofnað árið 1815. Mikilvægt er að hinn almenni borgari hafi aðgang að og möguleika til að lesa og nýta sér þann fjársjóð sem Biblían hefur að geyma. Þess vegna kom hún út á íslensku og endurútgefin með reglulegu millibili, tungumálið aðlagað og nýjasta útgáfa Biblíunnar er nú á rafbók. Biblían hefur verið almenningseign og til á flestum heimilium Íslendinga allt frá stofnun félagsins 1815. Eitt af því sem einkenndi afmælisárið voru hinir fjölmörgu sem skrifuðu greinar í dagblöðin til að benda á Biblíuna og hvetja til lesturs hennar. Ég vil þakka öllu því góða fólki að leyfa okkur að lesa um hvers virði Biblían er því og hve mikið gildi hún hefur fyrir trúarlíf fólks.

Boðskapur Biblíunnar fellur aldrei úr gildi. Hann er lifandi og kröftugur, sem gefur fyrirheit um samfylgd Guðs í gegnum líf okkar og ólíkar aðstæður um alla eilífð. Okkar er aðeins að taka á móti og þiggja. Biblían er fjölbreytt bók, í raun heilt bókasafn. Ritin eru misjöfn, sum auðlesin á meðan önnur eru tormeltari. Því er gott að þiggja þá leiðsögn sem býðst okkur í bæninni og heilögum anda, geta sótt í hana von, huggun, kærleika og leiðsögn fyrir hið daglega líf.

Biblían er fjársjóður fyrir hinn trúaða, hún er fjársjóður fyrir tónlistina, myndlistina, leiklistina og ritlistina svo fáeinar listgreinar séu nefndar og Biblían er fjársjóður fyrir fræðaheiminn og síðast en ekki síst hinn almenna lesanda.

Boðskapur Biblíunnar er grunnur að lögum og gildum samfélags okkar og hefur verið mikilvægur hlekkur í samfélagi þjóðarinnar í gleði og sorg.  Það hefur ekki farið mikið fyrir félaginu en ávöxtur starf þess hefur verið tungu okkar og samfélagi öllu ómetanlegt.

Hvatning til biblíufélagins er að Biblían sé ávallt til í því formi sem þarf hverju sinni. Hvatning til safnaða er að til sé vettvangur fyrir fólk að koma saman og kynnast Biblíunni með lestri og fræðslu.

Til hamingju með 200 árin. Afmælisárið gefur nýja von, nýja möguleika og ný tækifæri. Megi starf Hins íslenska biblíufélags hvíla í blessun Guð áfram sem hingað til.