Hér má sjá grein eftir Stefán Gunnar Sveinsson sem birtist í  Morgunblaðinu 31. desember 2015.

 

Hið íslenska biblíufélag fagnaði í ár 200 ára afmæli sínu, en það mun vera elsta félag landsins sem enn starfar. Félagið hefur minnst þessara tímamóta á veglegan hátt og staðið fyrir mörgum viðburðum á árinu. Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Biblíufélagsins, segist vera hæstánægð með það hvernig árið hafi gengið. Það hafi verið krefjandi, en jafnframt gefandi að fá að taka þátt í þessu merka afmælisári.

Afmælisárið hófst formlega í fyrstu viku janúar, þegar Karl Sigurbjörnsson, biskup og fyrrverandi forseti félagsins, flutti fyrstu hugleiðingu sína af þrettán í tilefni afmælisársins á útvarpsstöðinni Lindinni. Kirkjur landsins tóku einnig fullan þátt í afmæli félagsins og stóðu fyrir ýmsum viðburðum á árinu. Má þar til dæmis nefna Biblíukvikmyndaviku í Bústaðakirkju og fræðsluerindi um Biblíuna í Glerárkirkju og í Laugarneskirkju.

Fræðasamfélagið lét einnig til sín taka á afmælisárinu, en tvær málstofur á Hugvísindaþingi 2015 voru tileinkaðar áhrifasögu Biblíunnar á ýmsum sviða bókmennta og lista.

Afhjúpaður skjöldur

Á afmælisdegi félagsins, föstudaginn 10. júlí, var haldin hátíðarguðsþjónusta í Dómkirkjunni í Reykjavík og var reynt að hafa hana með svipuðu sniði og guðsþjónustu árið 1815. Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, prédikaði og sr. Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur þjónaði fyrir altari.

Að guðsþjónustunni lokinni var gengið í fylkingu að minnisvarða í Fógetagarðinum, þar sem lagður var blómsveigur til heiðurs Geir Vídalín, fyrsta forseta félagsins og biskupi árið 1815. Að því loknu var haldið að Aðalstræti 10, þar sem félagið var stofnað, og afhjúpaður þar minningarskjöldur.

Hinn 29. ágúst var svo haldin sérstök afmælishátíð félagsins í Hallgrímskirkju, en Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir stýrði þar fjölbreyttri dagskrá, þar sem tónlist var ekki síst í fyrirrúmi, en að auki flutti forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarp um þátt Biblíufélagsins í sögu þjóðarinnar.

Hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna voru einnig gerð góð skil á afmælisári félagsins og stóð félagið fyrir myndlistarsýningu í byrjun september, sem hét Konur og Kristur, en þar sýndu myndlistarkonurnar Elva Hreiðarsdóttir, Hanna Pálsdóttir, Hildur Ásgeirsdóttir, Ragnheiður Guðmundsdóttir, Rúna Gísladóttir, Steinunn Einarsdóttir og Þórey Magnúsdóttir, einnig þekkt sem Æja, verk sín. Dr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir, fyrsti kvenprestur Íslands, opnaði sýninguna.

Afmælisárinu lauk svo hinn 11. desember síðastliðinn með tónleikum í Dómkirkjunni, en þar fluttu frænkurnar Margrét Hannesdóttir sópran og Hólmfríður Sigurðardóttir píanóleikari tónlist sem samin hefur verið við texta Biblíunnar, eftir innlenda og erlenda höfunda eins og Pál Ísólfsson, Dvorak og Händel.

Ærið verk að þýða Biblíuna

Spurð um framtíð félagsins segir Ragnhildur að ýmis spennandi verkefni séu framundan. „Hið íslenska biblíufélag vinnur enn að sömu markmiðum og sett voru í upphafi, þegar félagið var stofnað fyrir 200 árum, árið 1815, að efla útbreiðslu Biblíunnar hérlendis og erlendis og stuðla að notkun hennar,“ segir Ragnhildur. Hún bendir á að Biblían hafi komið út á tæplega 3.000 tungumálum, en talið er að í heiminum séu til um 7.000 tungumál. „Það er því ærið verkefni að taka þátt í þýðingar- og útbreiðsluverkefnum Sameinuðu biblíufélaganna, United Bible Societies, sem eru regnhlífarsamtök fyrir öll biblíufélög í heiminum.“

Þá sé það spennandi verkefni í samfélagi nútímans að kynna Biblíuna og boðskap hennar eftir nýjum leiðum. „Nýja testamentið hefur um hríð verið til á hljóðbók og nýlega kom Biblían í heild sinni út sem rafbók hjá Forlaginu, þannig að nú getur fólk lesið Biblíuna á spjaldtölvum sínum,“ segir Ragnhildur. Þannig sé verið að mæta þörfum nútímafólks og gera Biblíuna aðgengilegri. „Það þarf að hugsa út fyrir rammann, vera opin fyrir nýjum leiðum, eiga samtal við fólk á öllum aldri og bjóða fólki að taka þátt í starfsemi félagsins,“ segir Ragnhildur.

Mikil mótunaráhrif Biblíunnar

Hún bætir við að Biblían og einstaka rit hennar hafi fylgt mannkyninu í meira en 2000 ár og mótað viðhorf og menningu Vesturlanda og reyndar langt út fyrir þau. „Vitneskjuna um þau menningarlegu mótunaráhrif þarf kannski að skerpa á meðal samtíðarinnar til þess að samhengið þarna á milli rofni ekki, því samfélagið er stöðugt að breytast og við viljum sjá framfarir, framþróun og umbætur,“ segir Ragnhildur.

Hún bætir því við að miklar framfarir hafi orðið á högum okkar á síðustu 100 árum, sem hafi kannski óbeint leitt til þess að okkur þyki við vera mun fremri en forfeður okkar, upplýstari og fróðari. „Okkur hættir stundum til að gleyma visku og þekkingu undangenginna kynslóða,“ segir Ragnhildur.

„Breytingar gera kröfur til þeirra sem þær reyna og fela í sér ábyrgð og ögrun, þær fela í sér tækifæri til aukins þroska. Þess vegna er það ábyrgð okkar að kasta ekki öllu því sem við höfum lært, góðum gildum, út í buskann heldur varðveita, meta og þakka,“ segir Ragnhildur að lokum.

Burðarstoð í vitund þjóðar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti ávarp í Hallgrímskirkju á afmælishátíð Hins íslenska biblíufélags. Þar vísaði hann til þeirrar tengingar sem ríkti á milli kristni og íslensks samfélags og sagði meðal annars: „Það gleymist oft í orðræðu okkar tíma, þegar krafist er að kristnum textum sé ýtt til hliðar í skólum landsins og við uppeldi æskunnar, að menning og vegferð Íslendinga frá landnámstíð til þessarar nýju aldar, rösk þúsund ár í sögu þjóðar, verða ekki skilin til hlítar án þekkingar á kristnum fræðum; frásagnir Biblíunnar, sess og þróun kirkjunnar, störf presta í byggðum landsins séu öllum kunn og að verðleikum metin; að viðurkennt sé af heilum huga að hin helga bók og trúarskáldskapur Íslendinga sjálfra eru burðarstoðir í sjálfsvitund þjóðarinnar, í samfelldri sögu okkar og í nýsköpun bókmennta, lista og samfélags á okkar tímum.“