Biblían er merk bók, þar sigrar hið góða það illa. Kristnir menn telja hana benda á Jesú Krist frá upphafi til enda. Hann hafi tekið þátt í sköpuninni með föðurnum á himnum og sé sá messías sem gyðingar bíða eftir. Jesús hafi með dauða sínum á krossi og upprisu frá dauðum gert manninum kleift að öðlast fyrirgefningu Guðs og eilífa himnavist. Kristnir telja Jesú enn vera lifandi og bíða endurkomu hans. Þetta er ævintýri fyrir sumum en raunveruleiki fyrir öðrum.

Mér fannst það ótrúlegt að finna Jesú á lífi í Kóraninum þegar ég las hann á námskeiði í Háskóla Íslands.  Jesús er einn af spámönnum íslams og telst vera meðal þeirra merkilegri. Hann fæddist fyrir kraftaverk þar sem orð Guðs og sköpunarkraftur gegndu lykilhlutverki. Meginhlutverk Jesú sjálfs í Kóraninum virðist vera að leiðrétta hugmynd kristinna um þríeinan Guð.  Kóraninn leggur mikla áherslu á að Jesús sé sonur Maríu en ekki Guðs. María sjálf hefur sérstöðu þar sem hún er útvalin af Guði og eina konan sem er nafngreind í Kóraninum.

Sérstaða Jesú er líka skýr í Kóraninum. Þar er Jesús spámaðurinn sem sagði fyrir um komu Múhameðs, boðaði Ísraelsþjóð fagnaðarerindið, gerði mörg tákn og undur og var góð fyrirmynd í siðferðilegum málum. Hann benti fólki á hinn rétta veg líkt og aðrir spámenn íslams og kristninnar og að gefast ekki upp í baráttunni við hið illa. Jesús er enn á lífi í íslam eins og í kristinni trú þó svo tvöþúsund ár séu síðan hann gekk um hér á jörðu. Lífgefandi kraftur Guðs er heillandi og heldur milljörðum manna hugföngnum.

Kóraninn lýsir því að Jesús hafi ekki dáið á krossi heldur hafi Guð bjargað honum frá kvölinni á krossinum og hafið hann til himna. Jesús er því lifandi með Guði og bíður eftir að fullkomna hlutverk sitt á endatímum. Samkvæmt íslam kemst enginn múslimi til himna án þess að trúa á alla spámennina en það þýðir að enginn múslimi kemst til himna án þess að trúa á Jesú. Friðarhöfðinginn Jesús sem svo margir telja vera þrætuepli kristinna manna og múslima ætti í raun að vera það sem sameinar þá. En Kóraninn sjálfur líkist hugmyndum kristinna um Jesú því í Kóraninum teygir Guð sig inn í jarðlífið með opinberun orðs síns, kemur á sambandi milli Guðs og manna og sýnir vald sitt og miskunn. Þannig er Kóraninn múslimum líkt og Jesús Kristur er kristnum.

Að eiga aðgang að lifandi Jesú í daglegu lífi er töfrandi hugmynd. Þegar svartnætti grúfir yfir eða erfiðleikar herja á bendir Jesús á von. Samkvæmt Biblíunni þurfti hann sjálfur líka að þjást og þekkir það hlutskipti vel, ef til vill er það þess vegna sem hann gefur lærisveinum sínum hjálparann og huggarann heilagan anda. Þjáning Jesú tók enda í sigri hans yfir dauðanum. Von kristinna manna um nýja og betri tilveru í návist Guðs, lausa við þjáningu og dauða finnst sumum kannski vera síðasta hálmstráið í þessum heimi. Kristin trú bendir á að þessi von geti orðið örugg vissa þess sem hefur fengið að reyna Guð.

Í Kóraninum og Biblíunni vekur Jesús athygli á mikilvægi þess að trúa á Guð, hughreystir fólk í miklum þrengingum og framkvæmir yfirnáttúruleg kraftaverk. Áhugi hans á heilsu og lífsafkomu fólks er greinilegur og kærleikur mikill. Stórkostlegt væri ef allir gætu lesið eða hlustað á hans merku sögu því að kynnast honum er ævintýri líkast. Meginviðfangsefni Hins íslenska biblíufélags er að dreifa sögu Jesú og fyrir það er ég ævinlega þakklát.

Helga Ólafsdóttir, kennari