Í Morgunblaðinu í morgun birtist eftirfarandi grein eftur Ævar Halldór Kolbeinsson.

Hið íslenska Biblíufélag á 200 ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni hafa ýmsir ágætir viðburðir verið haldnir, svo sem hátíðadagskrá í Hallgrímskirkju í sumar. Einnig kom út veglegt afmælisblað félagsins; B+ og þar var vel vandað til verka. Í því blaði má lesa um nýja bók, sem ég ætla aðeins að fjalla um. Sú bók hefur valdið því að ég hef lesið meira í Biblíunni en vanalega.
En fyrst svolítið um sögulegan fróðleik sem finna má í þessu afmælisblaði Biblíufélagsins. Þar segir í góðri grein frá íslenskum gesti, búsettum erlendis, sem boðið er að tala á samkomu í Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1909. Samkoman var vel sótt og heppnaðist vel, en þessi gestur var sérstakur á margan hátt. Hann hafði lokið námi í guðfræði og læknisfræði erlendis og var kona. Þetta var Steinunn Jóhannesdóttir Hayes (1870-1960).
Hún hafði þá öðlast starfsreynslu sem prestur í Vesturheimi, en þangað hafði hún flutt ung út. Einnig var hún þá byrjuð að starfa í Kína, en þar starfaði hún sem kristniboði og læknir í marga áratugi ásamt erlendum eiginmanni sínum. Þessi menntun og starfsreynsla Steinunnar, á þessum tíma, er merkileg í sögulegu tilliti, en meira má lesa um líf hennar í grein Arnfríðar Guðmundsdóttur; Prestur og læknir í Kína, í umræddu afmælisblaði.
En meira um bókina sem getur aukið Biblíulestur í samræmi við tilgang Biblíufélagsins. Hún nefnist Áhrifasaga Saltarans (2014) og er eftir Gunnlaug A. Jónsson. Bókin var gefin út seint á síðasta ári og fjallar ítarlega um áhrifasögu fjölmargra Davíðssálma. Sú saga birtist á margvíslegan hátt svo sem í skáldskap, kvikmyndum og annarri dægurmenningu samtímans, bæði hérlendis og erlendis.
Til að varpa ljósi á þá fræðiaðferð sem áhrifasagan er skal nefnt hér dæmi; Birtingarmynd áhrifa frá 121. sálmi komu fram í kvikmynd (1959) um líf Gyðingastúlkunnar Önnu Frank, byggðri á dagbók hennar. Þar vitnaði fjölskylda hennar í þennan sálm við ýmis tækifæri. Þau voru þá í felum í Hollandi, á sínum tíma, til að forðast nasista.
Í bókinni má finna mikinn fróðleik. Sú fræðiaðferð sem notuð er byggist á traustum grunni, og vel er vandað til allra verka. Bókin er nokkuð þung og umsvifamikil og gæti það dregið nokkuð úr notkunaráhuga fólks. Hún er engu að síður mjög læsileg og ágætt að lesa hana í áföngum. Hún gæti orðið góður fróðleiksbrunnur fyrir það fólk sem finnst þessi fræði frekar framandi, en er þó áhugasamt um Davíðssálma og annað Biblíuefni. Það er vegna þess að frásagnarmáti bókarinnar er svo aðgengilegur.
Oft má finna á sömu blaðsíðu greinargóða áhrifafrásögn tengda sálmi og svo til hliðar mynd af fólki sem fjallað er um, ásamt upplýsingum um það. Eða þá t.d. umfjöllun um kvikmynd.
Rótina að þessu meistaraverki er svo að finna í sjálfri Biblíunni. Þegar maður les þessa Saltarasálma þar kemur áhrifasagan upp í hugann, og gerir lesturinn innihaldsríkari. Síðan flettir maður upp á neðanmálsgreinum sem sýna oft tengingu við aðra sálma. Tilgáta höfundar Áhrifasögu Saltarans er að 23. sálmur sé þungamiðja sálmanna m.t.t. áhrifasögu, en upphafsorð hans eru fyrirsögn þessarar greinar.
Ég ætla nú að prófa að nota áhrifasögu sem vinnuaðferð til að kynna aðeins hér vanrækt verk. Frummynd þeirrar áhrifasögu er þá frásögn sem finna má svipaða í þremur guðspjöllum; svo sem í Lúkasi 8:22-25. Þar segir frá bátsferð Jesú og lærisveinanna í stormi. Þá vaknar Jesús af svefni og stillir storminn.
Valdimar Briem (1848-1930) orti út frá þessum ritningarversum í Biblíuljóðum sinum 1896. Þar segir m.a.

Það hreif ei neitt þótt höfuðskepnur æddu
Það hans ei fasta svefni raska vann
En bænarandvarp frá brjósti mæddu
Á augabragði getur vakið hann.

Annar Íslendingur hefur ort út frá þessari guðspjallafrásögn. Það er Guðrún Guðmundsdóttir frá Melgerði (1889-1992). Í bókinni Kveðjubros (1960?) birtist m.a. eftirfarandi í ljóðinu;

Á Genesaretvatni

Þeir segja vér förumst, ó hjálpa þú herra,
vér hræðumst, því mátturinn okkar vill þverra.
Hann vaknar og býður, og vindinn skjótt lægir.
Hans vilji frá skipinu öldunum bægir.
Jesús er ávallt um eilífð hinn sami,
þótt öldurnar veikbyggða fleyið mitt lami;
Ég þarf engu að kvíða, ég kærleik hans þekki.
Hans kraftur er mikill, hann gleymir mér ekki.

Áhrifasagan í erindi Valdemars og fyrra erindi Guðrúnar byggist á umræddum ritningarversum og áhersla lögð á styrk Jesú við þessar aðstæður. En það sem kemur fram í seinna erindi Guðrúnar virðist endurspegla líka aðra áhrifavalda. Kveðskapurinn þar er almennari og persónulegri, og því er hægt að álykta að þar gæti einnig áhrifa frá fleiri ritningarversum, þar sem máttur Jesú kemur í ljós, sem og öflugri trúarreynslu.
Ljóðabókin Kveðjubros inniheldur mikið af góðum kristnum kveðskap sem vonandi gleymist ekki. Ég ætla að enda þetta með upphafi eins erindis í þeirri bók úr ljóði sem heitir Lestu Biblíuna:
Ef þú lesið ennþá getur, ekkert reynast mun þér betur.

Höfundur er öryrki en hefur lokið háskólanámi, hérlendis og erlendis. Hann er félagi í HÍB.