Á laugardaginn verða tónleikar í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags. Þar kemur fram margt listafólk og meðal annars Áslaug Helga Hálfdánardóttir en á tónleikunum verða flutt lög eftir hana, sem samin voru í tilefni af afmælisári Biblíufélagsins. Við gefum Áslaugu Helgu orðið:
„Það var mér mikill heiður að fá að semja ný lög af tilefni 200 ára afmæli Biblíufélagsins. Á tónleikunum verða frumflutt tvö ný lög eftir mig. Mér til fulltyngis hef ég Óskar Einarsson sem útsetur bæði lögin fyrir kór, en við höfum starfað saman í 5 ár og gert mikið af nýrri íslenskri gospel tónlist. Kór Lindakirkju er það sem sameinar okkur og því lá beinast við að fá kórinn til að flytja lögin. „Sérstök bók“ er fyrra lagið sem verður flutt, en þar fékk ég í hendur texta eftir Guðlaug Gunnarsson. Textinn fjallar um þessa ofur sérstöku bók sem við eigum saman sem er Biblían. Ég fékk textann í hendur á mánudegi í febrúar og á miðvikudeginum settist ég niður og einum og hálfum klukkutíma síðar þá var lagið tilbúið. Oft getur verið snúið að semja við texta eftir einhvern annan en þarna beinlínis kallaði textinn á mig og þó það hljómi svolítið klikkað, þá var þetta bara sending. Algjörlega frábær texti hjá Guðlaugi. Seinna lagið sem verður frumflutt heitir „Kyrie eleison“, sem er miskunnarbæn og inn í lagið fléttast seinni hluti Faðir vorsins „ Eigi leið þú oss í freistni…“. Ég á annað lag þar sem ég nota fyrri hluta Faðir vorsins, Dýrð sé Guði heitir það, og var gefið út á geisladisk fyrir um ári síðan með Kór Lindakirkju „Með fögnuði“. Mér fannst einhvern veginn að ég þyrfti að „klára“ Faðir vorið, ef svo má segja, og er Kyrie eleison eiginlega systur lag við Dýrð sé Guði. Kyrie eleison er upprunalega samið sem dúett og syngur Guðrún Óla Jónsdóttir kórsystir mín dúett með mér í laginu ásamt Kór Lindakirkju. Bæði lögin sem flutt verða öðlast ákveðinn kraft í þessu samkrulli mínu, Óskars og Kórs Lindakirkju og hlakka ég mikið til að leyfa ykkur að heyra. En til að heyra þá þarf að mæta. Laugardagur kl. 20:30 í Fíladelfíu“