Á laugardaginn 26. september var opnuð Biblíusýning á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Í upphafi flutti Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður ávarp og bauð alla velkomna. Séra Sigurður Ægisson flutti erindi um biblíuþýðingar og séra Hreinn Hákonarson flutti erindi um Konstantín von Tischendorf biblíufræðing og handritasérfræðing en bæði erindin voru ákaflega vel flutt og áhugaverð. Tónlistarflutning annaðist Þórunn Harðardóttir, víóluleikari. Séra Kristján Valur Ingolfsson, vígslubiskup í Skálholti bar kveðju biskups Íslands, frú Agnesar M. Sigurðardóttur, forseta Biblíufélagsins, og opnaði hann sýninguna formlega fyrir hennar hönd. Undirritaður var samingur við Landsbókasafn um varðveislu gamalla Biblía og fundargerðabóka í eigu Biblíufélagsins. Dögg Harðardóttir, varaforseti félagsins og Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir undirrituðu saminginn og hann vottuðu Ólafur Egilsson fyrrverandi sendiherra og Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri Landsbókasafns. Ólafur J. Engilbertsson, sýningar- og kynningarstjóri safnsins sá um uppsetningu sýningarinnar ásamt starfsfólki safnsins og Brynjólfur Ólason hannaði veggspjöld og sýningaskrá.
Biblíusýningin verður opin í allan vetur og hvetjum við fólk til að sjá hana á Landsbókasafni Íslands- Háskólabókasafni.