Kirkjuritið er komið út. Í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags er ritið tileinkað Biblíunni. Ritstjórar blaðsins eru séra Árni Svanur Daníelsson og séra Kristín Þórunn Tómasdóttir en þau skrifa meðal annars:
„Á nýlegu málþingi Hins íslenska Biblíufélags um Biblíuna á 21. öldinni heyrðust áhyggjur af dvínandi bóklestri ungs fólks. Kannanir benda vissulega til minni bóklesturs en að því ber einnig að gæta að ungir og aldnir lesa mikið í annars konar miðlum. Sumir lesa raunar mjög mikið þótt þeir taki sér sjaldan eða aldrei hefðbundna bók í hönd.
Framan af hafði þorri hinna kristnu ekki aðgang að Biblíunni sem bók og fyrstu aldirnar voru kristnu söfnuðirnir raunar að koma sér saman um hvaða rit skyldu vera í helgiritasafninu. Þá var hlustað á Biblíuna. Siðbótarmenn unnu þrekvirki við að gera Biblíuna aðgengilega á móðurmálinu og hún kom t.d. út á þýskri tungu í fyrsta sinn árið 1534. Hálfri öld síðar leit Guðbrandsbiblía dagsins ljós á Íslandi. Enn var þó hlustað á Biblíuna í kirkjunni því bækur voru ekki almenningseign og ekki á allra færi að lesa þær.
Nokkrum öldum síðar er Biblían orðin almenningseign og læsi útbreitt. Landslagið er breytt frá því að fólk hlustaði fyrst og fremst á sögur Biblíunnar og nam þær inn í myndum og tónverkum. Í dag býr fólk við áður óþekktan aðgang að henni, sem bók, á vefjum og í smáforritum fyrir snjalltæki.
Það er þó full ástæða til hafa hugfast að það er ekki form Biblíunnar sem slíkt sem skiptir höfuðmáli heldur efniviðurinn: sögurnar og boðskapurinn. Það leiðir okkur að spurningum á borð við: Hvernig umgöngumst við Biblíuna og hvar liggur heilagleiki hennar? Er það í textanum og túlkun hans? Í viðtökunum? Í framsetningu eða nálgun?
Kirkjuritið leggur sitt af mörkum til að fagna 200 ára afmæli Hins íslenska Biblíufélags með því að helga þetta tölublað Biblíunni og leita svara við ofangreindum og öðrum mikilvægum spurningum.