Eftirfarandi ávarp var flutt á afmælisdegi Hins íslenska biblíufélags í Víkurkirkjugarði til heiðurs Geirs Vídalín. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson flutti.

Hér í Víkurkirkjugarði hinum forna hvílir Geir biskup Vídalín sem var fyrsti forseti Hins íslenska biblíufélags og þótti okkur stjórnarmönnum í félaginu við hæfi að setja hér blómsveig í minningu hans. Geir var fæddur 27. október 1761, sonur sr. Jóns Vídalín í Laufási og konu hans Sigríðar Magnúsdóttur. Geir var fimm ár í Hólaskóla, en hélt til Kaupmannahafnar árið 1780. Frá Hafnarháskóla lauk hann guðfræðiprófi með ágætiseinkunn árið 1789. Tveimur árum síðar fékk hann dómkirkjuprestsembættið í Reykjavík. Þann 25. júlí 1792 gekk hann að eiga Sigríði Halldórsdóttur, ekkju fyrirrennara síns í því embætti. Þau hjón eignuðust fjóra syni. / Geir var vígður biskup Skálholtsbiskupsdæmis 1797 og varð biskup Íslands er landið allt var gert að einu biskupsdæmi 2. október 1801. Hann bjó á Lambastöðum á Seltjarnarnesi 1792-1807 en fluttist eftir gjaldþrot til Reykjavíkur og settist að í Aðalstræti 10. Á heimili hans þar var Hið íslenska biblíufélag stofnað 10. júlí 1815 þó að biskup gæti ekki verið viðstaddur stofnun félagsins vegna veikinda. Hann þýddi samstofna guðspjöllin þrjú og voru þau prentuð í Viðey eftir hans dag, eða 1825-1827 og hafði Sveinbjörn Egilsson yfirfarið þýðinguna áður en að útgáfu kom en breytti litlu.
Geir var manna best að sér, greindur, orðheppinn, ritfær og vel hagmæltur. Hann þótti frjálslyndur í trúmálum og svo góðgerðasamur og örlátur að þeir eiginleikar hans áttu líklega stóran þátt í gjaldþroti hans, þó að fleira kæmi til eins og gífurlegt verðfall pappírspeninga. Árið 18o1 höfðu biskupshjónin 33 í heimili sínu að Lambastöðum. Geir biskup var gamansamur á hverju sem gekk. Sagt er að hann hafi einhverju sinni látið svo um mælt við kunningja sinn um eldamennskuna á Lambastöðum: „Á tveim stöðum slokkar aldrei eldur, – hjá mér og í helvíti.“ Hann lifir í minningunni sem „Geir biskup góði“.

Geir biskup var snemma svo þungfær að hestur gat ekki borið hann. Þess vegna gat hann ekki visíterað biskupsdæmi sitt nema þrjú sumur. Hann átti við vanheilsu að stríða síðustu árin og lést 20. september 1823. Hann var jarðsunginn frá Dómkirkjunni í afar fjölsóttri útför 6. október 1823 og voru líkmenn tólf talsins svo þungur var biskup og kistan stór eftir því. Það var sr. Árni Helgason prófastur í Görðum sem jarðsöng –en hann átti síðar drjúgan hlut í Viðeyjarbiblíu 1841. – Guð blessi minningu Geirs biskups góða og annarra frumkvöðla Hins íslenska biblíufélags.

Einnig var flutt ávarp fyrir framan Aðalstræti 10 en í því húsi var Hið íslenska biblíufélag stofnað. Húsið er nú í eigu Minjaverndar en Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Minjaverndar flutti ávarp og á húsið var látúnsskjöldur afhjúpaður.

Biskup Íslands, annað gott fólk,

Komið þið sæl,

Tilefni þess, að við stöldrum við hér fyrir framan þetta gamla hús, er að afhjúpa skjöld sem komið hefur verið fyrir hér á húsveggnum. Þar er þess minnst að 200 ár eru í dag frá því að  Hið íslenska Biblíufélag var stofnað íþessu endurgerða húsi – Aðalstæti 10. Ég  óska félaginu til hamingju með afmælið.

Ég heiti  Þröstur Ólafsson og er formaður Minjaverndar, sem er eigandi aðhúsinu ásamt  Reykjavíkurborg. Það gleður mig að vera þátttakandi að þessum viðburði.

Saga þessa merka Húss er í stórumdráttum rakin  á skiltinu – og er þar fáu við að bæta. Húsið var hluti af byggingum  Innréttinganna sem stofnaðar voru 1751 og voru upphaf þéttbýlis í Reykjavík. Þetta hús mun sennilega hafa verið reist árið 1762. Þegar Innréttingarnar voru lagðar niður, rétt fyrir aldamótin 1800, varð húsið  biskupssetur. Var þá kallað Biskupsstofa. Hér gisti Jón Sigurðasson fjórum sinnum hjá bróður sínum Jens. Frá lokum nítjándu aldar ráku kaupmenn hér verslanir. Undir lokin var lítið eftir af upphaflegri reisn hússins og starfsemi innanhúss eftir því. Það var svo eftir nokkurt japl og jaml og fuður að Minjavernd tók húsið undir sinn verndarvæng og endurgerði í upprunalegir mynd, en stækkaði það jafnframt með nýrri bygging fastri við gamla húsið svo auðveldara væri að koma þar fyrir nútíma starfsemi. 

Ég ætla mér ekki  þá dul að ræða mikilvægi og þýðingu Biblíunnar í þróunarsögu Vesturlanda og þar með Íslands. Hún gnæfir þar upp úr öllum öðrum bókum eða rituðum verkum, þeim ólöstuðum. Það eykur gildi þessa húss, að það félag sem hefur það að meginmarki að stuðla að útgáfu og útbreiðslu Biblíunnar var stofnað hér.

En til hvers eru svona minningarmörk? Þau eru til að minnast atburða eða merkismanna og kvenna – halda á lofti minningu– verja frá gleymsku. En þau eru einnig leiðbeining um söguna. Þau láta vita hvar merkisatburðir gerðust. Minningarmörk eru litlir vitar í ferðalagi okkar um lífið.

Þessi minningarskjöldur – hér á húsveggnum, er því þeim sem framhjá fara smá leiðbeining um ekki ómerkan hluta okkar skrykkjóttu sögu, sem við viljum halda á lofti.

Ég ítreka hamingjuóskir mínar tilfélagsins. Þökk fyrir.