Hið íslenska biblíufélag er 200 ára í dag! Það var stofnað í Reykjavík þann 10. júlí 1815 og er elsta starfandi félag landsins.
Í tilefni afmælisins var hátíðarguðsþjónusta í Dómkirkjunni. Messuformið var samkvæmt Handbók 1815. Pistill og guðspjall voru lesin úr Biblíuútgáfunni frá árinu 1813, Henderson-biblíunni/Grútarbiblíunni. Að lokinni guðsþjónustu var gengið út í Víkurkirkjugarð en þar var lagður blómsveigur til minningar um fyrsta forseta HÍB, Geir Vídalín, biskup. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, guðfræðiprófessor, flutti þar ávarp og sagði frá Geir Vídalín og fl. Síðan var gengið að Aðalstræti 10 en í því húsi var Bibliufélagið stofnað. Þröstur Ólafsson, formaður Minjaverndar, flutti þar ávarp og afhjúpaði látúnsskjöld ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur. Í dag lagði einnig fulltrúi íslenska sendiráðsins í London blómsveig að leiði Ebenezers Henderson, sem var hvatamaður að stofnun Biblíufélagsins en hann er grafinn í Abney Park kirkjugarðinum í London. Fulltrúi Sameinuðu biblíufélaganna (UBS) var viðstaddur þá athöfn. Biblíufélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt í hátíðahöldunum. Ljósmyndirnar tóku Vigdís V. Pálsdóttir og sr. Hreinn Hákonarson