Margt fólk lagði leið sína á Þjóðminjasafnið í dag þegar opnuð var sýning á 3. hæð safnsins í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags. Bryndís Sverrisdóttir sviðsstjóri miðlunarsviðs Þjóðminjasafns bauð gesti velkomna og kynnti efni sýningarinnar sem samanstendur af ýmsum Biblíuútgáfum í eigu Þjóðminjasafnsins, Biblíufélagsins og Gídeonfélagsins. Einnig flutti Ragnhildur Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri HÍB ávarp og Helga Vilborg Sigurjónsdóttir söng yndisleg lög með textum úr Biblíunni en lögin voru eftir hana. Henning Emil Magnússon lék undir á gítar. Vigdís Pálsdóttir, ljósmyndari, tók myndirnar en á þeim m.a. sjá Helgu Vilborgu og Henning Emil, Böðvar Björgvinsson ásamt Ragnhildi framkvæmdastjóra HÍB.

Biblíufélagið þakkar öllum þeim sem voru viðstaddir opnunina og hvetur fólk til að leggja leið sína í Þjóðminjasafnið og skoða sýninguna sem verður uppi fram í ágúst.