Hátíðarguðsþjónusta verður í Dómkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 10. júlí kl. 16 í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags, sem er elsta starfandi félag á Íslandi. Guðsþjónustan er öllum opin og er þess vænst að margir leggi leið sína í Dómkirkjuna þennan dag og minnist stofnunar þessa merka félags.

Stofnun félagsins fór fram á biskupssetrinu, sem þá var að Aðalstræti 10 í Reykjavík, að undangenginni guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Nú réttum tveimur öldum síðar er ætlunin að rifja upp þessa atburði og starf félagsins í gegnum tíðina.

Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar, en hún er jafnframt forseti Hins íslenska Biblíufélags. Séra Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur þjónar fyrir altari. Þau Sigrún Ásgeirsdóttir og Ólafur Egilsson lesa ritningarlestur og fara með lokabæn. Við guðsþjónustuna syngja félagar úr Dómkórnum undir stjórn Kára Þormar organista.

Að lokinni guðsþjónustu verður gengið að húsinu Aðalstræti 10 og skjöldur festur á húsið til minja um að félagið hafi verið stofnað þar. Fulltrúi Minjaverndar flytur ávarp en húsið er nú í eigu Minjaverndar.

Þennan dag verður einnig lagður blómsveigur í Víkurkirkjugarði til að heiðra minningu Geirs Vídalín, en hann var fyrsti forseti félagsins og biskup Íslands árið 1815. Þá mun forstöðumaður íslenska sendiráðsins í London setja blómsveig á leiði Ebenezers Henderson en hann var hvatamaður að stofnun Biblíufélagsins. Fulltrúi frá Sameinuðu Biblíufélögunum, United Bible Societies (UBS), verður viðstaddur athöfnina þar.

Verið innilega velkomin!