Það eru margar ferðirnar sem farnar eru með útlendinga sem vilja kynnast Íslandi. Fólkið er agndofa yfir fjölbreyttri náttúru sem landið býður upp á, fegurðinni í landslaginu og litadýrðinni. Ferðamennirnir tjá sig og minna okkur Íslendinga á að fara vel með landið okkar og hlúa að þeirri yndislegu náttúru sem við eigum. Í áttunda Davíðssálmi erum við minnt á sköpun Guðs alls staðar í kringum okkur og hvað við erum í raun lítil í öllu þessu sköpunarverki. Þar segir meðal annars:

Þegar ég horfi á himininn, verk handa
þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri,
lést hann ríkja yfir handaverkum þínum,
lagðir allt að fótum hans:
sauðfénað allan og uxa
og auk þess dýr merkurinnar,
fugla himins og fiska hafsins,
allt sem fer hafsins vegu.
Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.

Biblían segir að Guð hafi skapað heiminn og gert okkur að ráðsmönnum yfir jörðinni. Þess vegna er svo mikilvægt að við ræktum jörðina og förum vel með hana. Í dásamlegri náttúru Íslands erum við minnt á hve undursamleg sköpun Guðs er. Og einmitt þegar við njótum náttúrunnar þá getum við notað tækifærið til að þakka Guði og lofa hann fyrir sköpun hans.