Hans Johan Sagrusten, starfsmaður norska biblíufélagsins, er þessa vikuna gestur Hins íslenska biblíufélags og hann svarar hér nokkrum spurningum.
Hver er menntun þín og fyrri störf?

„Ég er guðfræðingu að mennt og hef sérhæft mig í Nýja testamentisfræðum. Ég var prestur í átta ár og skólastjóri í eitt og hálft ár á biblíuskóla áður en ég hóf störf hjá norska biblíufélaginu“.

Hvað hefur þú unnið lengi þar og í hverju er starf þitt fólgið?

„Ég hef starfað í átta ár hjá Biblíufélaginu. Þar sé ég um alþjóðlegt samstarf því norska biblíufélagið styður við útgáfur og þýðingar á Biblíunni um allan heim. Ég er einnig ritstjóri fréttablaðsins okkar, skrifa greinar fyrir heimasíðuna bibel.no og tek að mér fræðslu í kirkjum landsins. Ég kom einnig að þýðingu nýjustu útgáfu Biblíunnar árið 2011“.

Hvernig námskeið eða fræðslu býður þú upp á? 

„Ég held oft námskeið um Biblíuna, uppruna handrita og aldursgreiningu þeirra. Ég kenni einnig hvernig megi nota Biblíuna, hvernig hægt sé að byggja upp daglegan biblíulestur og síðan kynni ég oft það alþjóðlega starf sem norska biblíufélagið tekur þátt í. Mér finnst líka gaman að leitast við að sameina alla þessa þætti“.

Hvernig er hægt að stuðla að auknum lestri Biblíunnar?
„Hér á Norðurlöndum er það oft þannig að hver og einn les í Biblíunni út af fyrir sig. Mikið áreiti og tímaleysi verður oft þess valdandi að erfitt er að einbeita sér að lestri hennar. Þegar ég ferðast og kynnist samfélagi trúaðra utan Noregs sé ég að þar er þetta oft allt öðruvísi. Þar safnast fólk gjarnan saman og les upphátt úr Biblíunni. Þá heyrir fólk textann um leið og hann er lesinn. Fólk hittist reglulega, les saman heilu kaflana og sér þannig textann í samhengi, ekki eins og við hér á Norðurlöndum, sem lesum kannski eitt og eitt vers. Þarna er fólk virkilega að lesa saman og eiga samfélag saman um Guðs orð. Síðan spjallar það saman um hvað þýða þessi orð fyrir okkur í dag. Ég segi oft að við eigum að vera RÍK.
R= lesa Reglulega í Biblíunni
Í= Í samfélagi við aðra
K= lesa að minnsta kosti Kafla í hvert sinn.
Þannig verður líf okkar auðugt, við verðum rík af orði Guðs“.

Við þökkum Hans innilega fyrir spjallið og heimsókn hans hingað.