Hið íslenska Biblíufélag var stofnað 1815 og er því 200 ára. Ég er félagi í þessu góða félagi, og er stolt af því. Um leið og ég varð læs fékk ég Biblíuna að gjöf. Ég hafði verið í tímakennslu hjá séra Árelíusi og gladdist mikið yfir þessari blessuðu bók, sem æ síðan hefur verið mér leiðarvísir, styrkur og hjálp á ævigöngunni.

Það var mín gæfa að hafa fengið að heyra boðskap Biblíunnar. Foreldrar mínir sögðu okkur systkinunum frá Jesú og því sem hann sagði og gerði. Ein af dæmisögum Jesú, hafði þau áhrif á mig að það gleymist aldrei. Það var dæmisaga Jesú um góða hirðinn. Góður hirðir gætti vel að sauðunum. Við Íslendingar tengjum vel við þessa frásögu, því það er ekki svo langt síðan að setið var yfir fénu hér á landi. Þessi hirðir sem Jesús segir frá sat yfir fénu og gætti vel.

Það sem hafði svo mikil áhrif á mig var að lítið lamb villtist frá móðurinni og hópnum og týndist. Hirðirinn var þess var, og af því að þetta eina litla lamb var jafn mikilvægt og allir hinir sauðirnir, lagði hann af stað að leita. Hann skildi hópinn eftir, og fór að leita að þessu lambi sem skipti máli. Hann kallaði í allar áttir, og loks heyrði hann veikt jarm, og gekk á hljóðið, en lambið hafði fallið niður á syllu og var í sjálfheldu. Hirðirinn kraup niður og notaði hirðisstaf sinn til að krækja utan um litla lambið og hífði það upp og bar það til móður sinnar.

Þegar foreldrar mínir útskýrðu fyrir mér að þannig vill Jesús fá að vera hirðir í mínu lífi, þá tók ég það mjög alvarlega, og ég sem lítið barn bað mína bæn til góða hirðisins og bað hann um að leyfa mér að fylgja sér allt mitt líf. Og það hefur verið gott að fylgja góða hirðinum, því lífið getur verið hart og miskunnarlaust. Og þá þarf maður einhvern sér sterkari til að halla sér að í stormviðrum lífsins. Ég hef valið Jesú sem er góði hirðinn. Eitt af því sem er líka svo fallegt við þessa frásögu er að hirðirinn þekkti hverja kind og lamb með nafni. Þannig er Jesús hann þekkir okkur hvert og eitt með nafni. Hann dó á krossi og reis upp frá dauðum og lifir í dag! Hann er nú á himnum við hlið föðurins og biður fyrir okkur. Og það er hann sem mildar allar aðstæður okkar í þessum heimi.

Ég veit um marga sem trúa boðskap Biblíunnar og fengið styrk og lausn inn í sitt líf með því að tileinka sér orð Jesú og biðja. Stundum er bæn hins hrjáða manns eða konu, bara sú að fá að halla sér upp að hjarta Jesú. Það þarf engin orð, því hann þekkir þá sem treysta honum.

Halldóra Lára Ásgeirsdóttir,
starfsmaður útvarpsstöðvarinnar Lindin