Biblíufélagið fékk nokkur skáld til að yrkja ljóð í tilefni af 200 ára afmæli félagsins. Guðlaugur Gunnarsson er eitt þeirra. Hann hefur samið og þýtt fjölda texta og ljóð fyrir kóra og sönghópa sem þykja mjög innihaldsríkir og góðir. Guðlaugur samdi nokkur ljóð fyrir Biblíufélagið og félagið hefur fengið nokkra listamenn til að semja lög við ljóðin hans.
Biblíufélagið birtir hér eitt ljóða Guðlaugs og þakkar honum innilega fyrir fallegt ljóð.

Sérstök bók

Sú er á meðal bóka minna sérstök, heilög bók,
já, Biblían, er Orð Guðs til mín talar.
Og leðurband og eðalpappír engu við það jók
því innihaldið er það sem mér svalar.

Ég les og kafa djúpt í orðin, drekk þau í mig öll,
þau eiga fólgin í sér kraft og gleði.
Því Ritningin hún segir mér að Guðs son bar mitt böl
og bætti allt, er líf sitt lagði‘ að veði.

Hún segir mér hve undri lík Guðs elska sé til mín
þó einhvern veginn villst ég hafi‘ af vegi.
Í kærleik sínum laðar mig og kallar heim til sín,
í Kristi Jesú nýja von ég eygi.

Og þegar les ég þessa bók þá talar Guð mín til,
hann tjáir mér sinn vilja og mig leiðir.
Sinn anda mér hann gefur svo hans vegi fylgja vil
og vegferð mína heim til Guðs mér greiðir.

Svo dýrmæt er mér bókin sú er blessar lífið mitt
að ber ég þrá í hjarta‘ að aðrir merki.
Því alla menn í víðri veröld elskar Guð svo heitt
að orð hans boða vil í lífi‘ og verki.

Guðlaugur Gunnarsson