Seltjarnarnessókn stendur fyrir fræðslumorgnum í febrúar og mars í tilefni af afmælisári Biblíufélagsins. Fyrirlestrarnir fjalla um Biblíuna frá ýmsum sjónarhornum og þeir verða jafnan kl. 10 á sunnudagsmorgnum. Sunnudaginn 22. febrúar kl. 10 mun Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og fyrrverandi forseti Alþingis fjalla um efnið Áhrif Biblíunnar í ritverkum mínum. Á vef útgáfufyrirtækis Eddu stendur meðal annars:
Guðrún Helgadóttir er einn vinsælasti og virtasti barnabókahöfundur Íslands allt frá því að hún sendi frá sér sína fyrstu bók, Jón Oddur og Jón Bjarni. Sú bók hefur borið hróður hennar víða um lönd, auk þess að hafa verið kvikmynduð. Guðrún hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin árið 1992. Hennar helsti styrkur sem rithöfundar felst að mati gagnrýnenda í þeirri virðingu sem hún ber fyrir börnum jafnframt því að geta séð spaugilegar hliðar á flestum málum. Hún hefur sent frá sér sextán sögur og eitt leikrit. Verk hennar hafa verið þýdd á níu tungumál í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Bækur Guðrúnar hafa hlotið góða dóma heima og erlendis þar sem menn hafa skipað henni á bekk með barnabókahöfundum á borð við Astrid Lindgren, Thorbjörn Egner og Ann Cath. Vestley.
Árið 2000 söðlaði Guðrún um og skrifaði sína fyrstu skáldsögu sem einkum er ætluð fullorðnum og nefnist hún Oddaflug. Bókin sló í gegn, var meðal söluhæstu bóka fyrir jólin og hlaut lofsamlega dóma. Þá hefur Guðrún einnig samið sakamálaleikrit sem nefnist Hjartans mál og var það sýnt í Ríkissjónvarpinu árið 1997 í þremur hlutum.