Biblíumaraþon verður í lok samkirkjulegrar bænaviku um næstu helgi, 24. -25. janúar. Kirkjur og söfnuðir um allt land taka þátt í maraþoninu með fjölbreyttum hætti.
Meðal annars má nefna að í Grensáskirkju næstkomandi sunnudag, í guðsþjónustu kl. 11, ætlar söfnuðurinn að taka þátt í Biblíumaraþoninu og lesa 15 lestra. Lágafellssókn kallar fólk til að koma saman í kirkjunni næsta laugardag klukkan 10 -12 og þar verður lesið saman upp úr Biblíunni. Í Kolfreyjustaðarprestakalli, Kópavogskirkju og í fleiri sóknum ætla fermingarbörn að halda Biblíumaraþon í febrúar. Það er mjög ánægjulegt hvað margar kirkjur og söfnuðir taka þátt í maraþoninu.
Með Biblíumaraþoni bendum við á mikilvægi Biblíunnar og boðskap hennar, minnum á 200 ára afmælisár Biblíufélagsins, hvetjum fólk til að lesa Biblíuna og kynna sér boðskap hennar.
Á stöð 2 í kvöld, í þættinum Ísland í dag, mun varaforseti félagsins Dögg Harðardóttir kynna Biblíumaraþonið.