Í 9.  grein laga Hins íslenska biblíufélags stendur:

Stjórnin efnir árlega til samráðsfundar um málefni félagsins með trúnaðarmönnum þess og öðrum félagsmönnum er þátttöku óska.
Ennfremur skulu eiga rétt til setu á téðum samráðsfundum fulltrúar trúfélaga í Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga og fulltrúar kristinna félagasamtaka

Í dag var haldinn slíkur samráðsfundur þar sem fulltrúar trúfélaga og kristinna samtaka komu saman. Fundurinn var haldinn í Neskirkju.

Agnes M. Sigurðardóttir, forseti félagsins hóf fundinn með orði og bæn, Dögg Harðardóttir, varaforseti sagði frá sögu félagsins og markmiðum þess. Hún kynnti þá viðburði sem framundan eru í tilefni af 200 ára afmæli félagsins. Hún hvatti söfnuði til að láta félagið vita af viðburðum sem þeir standa sjálfir að og þeir verða þá auglýstir á heimasíðu félagsins.

Guðni Einarsson leiddi umræður um félagið, útgáfur Biblía og framtíðarsýn. Sr. Valgeir Ástráðsson endaði fundinn með orði og bæn. Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnaði fundinum en um 25 manns sóttu fundinn sem þótti takast með miklum ágætum.

Biblían er grundvöllur kristinnar trúar og sameinar alla kristna menn. Biblíufélagið vill virkja alla kristna menn, karla og konur, til að taka þátt í starfi félagsins, gerast félagar og styðja við starf félagsins. Biblíufélagið er elsta starfandi félag á Íslandi í dag og samanstendur af fólki úr öllum kirkjudeildum og kristnum trúfélögum sem saman vinna að útbreiðslu Biblíunnar og þess fjársjóðs sem hún hefur að geyma.

Biðjum fyrir framtíð Biblíufélagsins á Íslandi!