Flutt 1. janúar 2015 · Dómkirkjan í Reykjavík

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Flugeldunum hefur verið skotið upp, þeir hafa sprungið í háloftunum og marglitaðar glæringarnar á dimmum næturhimninum hafa glatt augað. Hljóðið hefur þagnað, nýtt ár er gengið í garð. Gleðilegt ár 2015 og þakkir fyrir það sem liðið er í aldanna skaut. Það eru blendnar tilfinningar sem búa í huganum þegar sungið er: „Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.“ Eitt andartak er eins og tækifærin séu horfin og vonin úti, en svo tekur gleðin völd og margir byrja hið nýja ár með söng og dansi. Enn er tækifæri til að halda áfram lífsins göngu. Enn er tækifæri til að gera betur. Enn er tækifæri til að framkvæma og enn er tækifæri til að hugsa. Hugsun verður ekki frá okkur tekin hvað svo sem kommentakerfum líður eða öðrum þeim miðlum þar sem menn skiptast á skoðunum. Hugsun er sett í orð sem fara út í heiminn, þar sem þau eru móttekin, þeim er tekið vel eða illa, þau eru ef til vill misskilin, rangtúlkuð. Það fer eftir þeim huga er heyrir.

Í Jóhannesarguðspjalli segir að Jesús sé Orðið. Ekki Orð, heldur Orðið, hið skapandi orð Guðs, eilíf hugsun Guðs og speki í heiminn komin sem maður. Þó mönnunum sé margt til lista lagt eru þeir ekki Guð, en eiga að líkjast honum og bera honum vitni, bæði í orði og í verki. Við minnumst fæðingar frelsara okkar á helgri hátíð, hans sem kom í heiminn á sama hátt og öll jarðarinnar börn, Guð og maður, maður og Guð. Já, Guð, sem tengir himinn og jörð, líkama, sál og anda og líka hið andlega og veraldlega. Fyrir mörgum er Guð félagi á ferðalagi lífsins, lifandi veruleiki sem styður og hjálpar í dagsins önn. Drottinn og frelsari sem gefur lífinu merkingu. Þann Guð hefur kristin kirkja boðað frá upphafi, þess fullviss að boðskapurinn á erindi við samtímann hverju sinni.

Á þessu nýbyrjaða ári 2015 eru liðin 200 ár frá stofnun elsta starfandi félags landsins. Hið íslenska Biblíufélag var stofnað 10. júlí árið 1815. Afmælisins verður minnst með ýmsum hætti á þessu ári. Það er umhugsunarvert að elstu starfandi félög landsins eru tengd Biblíunni og bókmenntunum, menningararfi okkar og uppsprettu hugmynda okkar um mann og heim, hið íslenska Biblíufélag og hið íslenska Bókmenntafélag.

Biblían er margar bækur, skrifaðar á mismunandi tímum. Hún er alþjóðleg bók og á erindi við alla menn. Þar er fjallað um allt er viðkemur mannlegu lífi, opinbert líf, einkalíf, fjölmenningarsamfélag, dyggðir og gildi, farsæld, myrkar hliðar lífsins og lausn frá þeim. Biblían á erindi við einstaklinga og samfélög, leitandi fólk og hjálparþurfi, forvitið fólk og fróðleiksfúst. Hún er bókmenntaverk og segir frá nærveru Guðs í heimi mannanna. Hún er trúarbók og kennslubók í því hvað það er að vera maður í hörðum heimi. Hún bendir á kærleikann, sem aldrei fellur úr gildi og er mestur þeirra þriggja, trúarinnar og vonarinnar. Textar Biblíunnar hafa verið uppspretta listamanna í gegnum aldirnar. Listmálara, rithöfunda, kvikmyndagerðarmanna, leikhúsmanna, tónlistarmanna. Hún er uppspretta sem aldrei þrýtur. Fyrir hina kristnu er Jesús þungamiðja Biblíunnar. Gamla-testamentið trúarbók hans, guðspjöllin lýsing á lífi hans, kenningum og framkomu, Postulasagan og bréfin saga kirkjunnar í heiminum á fyrstu dögum hennar. Textar hennar hafa haft áhrif á íslenskt tungumál og margar kynslóðir lærðu að lesa af spjöldum hennar. Hún er ekki aðeins fyrir hin fullorðnu hún er líka fyrir þau yngri.

Boðskapur Jesú á erindi við hverja kynslóð. Kærleiksboðskapur hans er ofar öllum lögmálskröfum. Sá Guð sem Jesús birti og boðaði er lifandi veruleiki þeim sem trúa. Trúin á Krist hefur haft mótandi áhrif á heilu þjóðirnar, mótað hugsunarhátt og lífsafstöðu. Guðstrúin var aflið sem bjó að baki þjóðfélagsskipaninni en nú er öldin önnur. Þórir Kr. Þórðarson heitinn, guðfræðiprófessor, lærifaðir guðfræðinema hér á árum áður skrifaði grein þar sem hann fjallar meðal annars um sameiningu og upplausn samfélaga. Þar segir hann: „Allt fram á þessa öld bjó með þjóðum Evrópu dulin en virk afstaða til lífsins: Sameiginleg grundvallarlög lífsins giltu um öll mannleg samskipti. Þessi lög léðu mannlífinu tilgang. Þau sameinuðu einstaklingana og stjórnuðu þjóðunum þótt vitundin um þau byggi aðeins í undirvitund þjóðanna. Þessi grundvallarlög spruttu af vitundinni um raunveruleika Guðs.

Þegar Guð hvarf úr vitund Evrópuþjóða og þar með hin duldu grundvallarlög lífsins, sundruðust þjóðirnar í hagsmunahópa. Þeirrar skoðunar hefur orðið vart meðal hagfræðinga að nú á dögum séu ekki til nein sameiginleg viðhorf er tryggi efnalegar framfarir þjóðarheildanna. Þeir telja að þjóðfélögin skiptist í andstæða hagsmunahópa sem hver um sig berst við aðra hagsmunahópa fyrir hönd sinna umbjóðenda. Þess vegna séu raunverulegar efnalegar framfrir fyrirfram útilokaðar. Eilíf gildi hafa verið afnumin og stundleg lífsgildi sett í þeirra stað.“

Þetta eru umhugsarverð orð. Það virðist á stundum sem við sem þetta land byggjum nú um stundir höfum ekki sameiginlegan grundvöll til að standa á. Það er sama hvað sagt er og gert er. Það er allt dregið í efa og stutt er í hugsanir um annarlegan tilgang eða hagsmunapot. Það stafar meðal annars af því að við blasir að ekki hafa allir landsmenn sömu tækifæri til að lifa áhyggjulausu lífi, hvað varðar efnahagslega afkomu. Í fjallræðunni talar Jesús um áhyggjur okkar mannanna. Til að takast á við þær bendir hann á leið sem er sú að snúa sér til Drottins með allt okkar. „En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki“ segir hann.

Það er kallað eftir leiðtoga. Það heyrist oft í umræðunni. Kirkjan bendir á leiðtogann Jesú Krist. Hann er svarið við spurningum um mann og heim. Hann er fyrirmynd. Hann er frelsari, sá sem gerir okkur frjáls en um leið ábyrgðarfull um velferð náungans og samfélagsins alls.

Í fyrstu guðsþjónustu nýs árs eru blessunarorðin lesin úr helgri bók. Blessun Guðs fylgir okkur inn í nýtt ár og hún minnir okkur á að allt er Guð fær snert, stækkar og vex, laufgast og grær. Því miður eru mannanna verk ekki öll vitnisburður um líf, ljós og kærleika, heldur þvert á móti vitnisburður um hið gagnstæða, dauða, myrkur og grimmd. Líf okkar allt ætti að vera vitnisburður um blessun Guðs. Með þá blessun göngum við út úr kirkjunni og eigum að vinna lífinu, náunganum og samfélaginu gagn. Ekki í eigin mætti heldur vegna þess að Guð er með okkur.

Æðruleysisbænin er mörgum kunn og notadrjúg:

Guð – gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

Það er Guð sem gefur, mennirnir þiggja og nota og nýta.

Til hvers er lifað og hvert skal stefna á lífsins leið? Veraldlegt gengi er mörgum hugleikið enda er það stór hluti af farsæld í lífinu. En það er ekki allt, því andleg velferð er líka ofarlega á blaði þegar spurt er um hamingjuleiðina. Sagan um Mídas konung og óskina hans sem rættist minnir okkur á það sem máli skiptir. Það er ekki annað hvort eða heldur bæði og.

Mídas konungur var gráðugur í gull. Honum bauðst ein ósk. Hann óskaði sér þess að allt sem hann snerti breyttist í gull. Honum varð að ósk sinni en fór að efast um gildi þessa hæfileika síns þegar dóttir hans, Gullinbrá, breyttist í gullstyttu við faðmlag hans. Já og raunar allt er hann snerti, það breyttist í gull, líka matur og drykkur. Auðurinn er ekki bara falinn í gulli heldur í því sem við þörfnumst, fæðis, klæðis, hússkjóls, kærleika og vináttu.

Mesti auður þessa lands er fólkið sem hér býr. Í samfélaginu þurfa að vera aðstæður til að koma öllum börnum til manns og hverjum manni til hjálpar sem er hjálparþurfi. Hver maður, karl eða kona á að búa við þær aðstæður að geta vaxið og þroskast, sjálfum sér til farsældar og náunganum til blessunar. Þau sem hlýddu á Jesú og urðu vitni af kraftaverkum hans hrifust af honum. En það var ekki nóg, því trú þeirra þurfti að þroskast og vaxa. Á sama hátt þarf að búa að íslenskri þjóð að hún fái vaxið og þroskast, bæði á veraldarinnar vísu en ekki síður á andlega vísu. Leyfum leiðtoganum Jesú Kristi að leiða okkur áfram veginn á nýju ári og um framtíð alla. Því mun fylgja blessun og farsæld og fullkomin lífsfylling.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.