Hið íslenska biblíufélag hefur fengið góða heimsókn frá Sameinuðu Biblíufélögunum (UBS), Ingrid Felber-Bischof. Ingrid hefur starfað fyrir UBS í tuttugu ár og hennar sérsvið er alþjóðlegt starf. Hún ferðast því mikið og víða vegna sinnar vinnu. Þetta er þó í fyrsta skipti sem hún kemur til Íslands. Hún þekkir ágætlega til Íslands og íslenskra bókmennta en hún hefur tekið þátt í bókamessum og meðal annars árið 2009 í Frankfurt þar sem áherslan var á Ísland og íslenskar bækur. Hún segir Þjóðverja hafa mikinn áhuga á Íslandi, sögu landsins og náttúru. Ísland heillar. Ingrid er kennari að mennt og kenndi meðal annars þýskar bókmenntir en hún starfaði einnig hjá bókaforlagi áður en hún tók til starfa hjá UBS.

Sameinuðu biblíufélögin eru regnhlífasamtök yfir öll starfandi biblíufélög í heiminum og starfsfólk þeirra hafa aðsetur um allan heim. Ingrid starfar í Stuttgart en skrifstofa hennar er staðsett við Balinger Strasse þar sem þýska biblíufélagið er til húsa. Hjá þýska biblíufélaginu starfa um fjörtíu manns.
Ingrid mun næstu daga funda með stjórn félagsins og framkvæmdastjóra.