Gurli Vibe Jensen er 90 ára í dag, 29. desember. Gurli er fyrrum sóknarprestur, kristniboði og rithöfundur.
Gurli fór 26 ára til Nígeríu til að gerast kristniboði. Á þeim tíma þótti það mjög undarlegt að ung kona skyldi yfirgefa föðurland sitt til að gerast kristniboði í fjarlægu landi en fyrir henni var þetta sjálfsagður hlutur. Hún var alin upp í kristinni trú, hún fann fyrir köllun að breiða út þann boðskap sem hún þekkti svo vel og hafði tileinkað sér. Til að undirbúa sig undir kristniboðsstarfið fór hún í eitt ár til Skotlands og Englands þar sem hún nam guðfræði og lærði um kristniboð í fjarlægum löndum. Í tíu ár starfaði Gurli í Nígeríu en síðan flutti hún til Bandaríkjanna þar sem hún lærði bókmenntir og sálfræði.
Árið 1965 snéri Gurli aftur til Danmerkur og starfaði sem sóknarprestur í Kaupmannahöfn. Hún stóð fyrir öflugu, fjölbreyttu og lifandi starfi í sinni sókn sem laðaði að sér fjölda fólks. Gurli sat í stjórn Biblíufélagsins frá 1981-1989 og var meðal annars varaforseti Sameinuðu biblíufélaganna í Evrópu og formaður Sameinuðu biblíufélaganna frá 1980-1984.
„ Það er mikilvægt að minnast þess að Biblían er ekki einungis fyrir Dani. Biblían er alþjóðleg bók sem á erindi við allan heiminn. Biblían á erindi inn í fjölbreytt menningarsamfélög og þess vegna er mikilvægt að við tölum hvert við annað um þessa bók“ segir Gurli.
Gurli varð virk í danska Biblíufélaginu þegar meðlimir þess voru einungis 165 talsins. Hún ferðaðist um og hélt fyrirlestra á vegum félagsins til að kynna það fyrir Dönum. Þegar biblíufélagið varð 150 ára, árið 1964, var það haldið hátíðlegt með hefðbundnum hætti með guðsþjónustu í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn. Um kvöldið komu síðan 1600 manns til hátíðar í Fredriksberg þar sem meðal annars komu fram frægir danskir leikarar og Kammerkór Kaupmannahafnar. Á afmælisárinu var gefinn út geisladiskur þar sem frægur leikari, Poul Reymert, las valda ritningartexta úr Nýja testamentinu, sem var nýbreytni á þeim tíma.

„Um 1960 fannst flestu fólki Biblían vera fyrir eldra fólk. Okkur langaði til að dusta rykið af þeirri hugmynd og kynna boðskapinn á nýjan hátt. Við vildum finna leikara til að miðla textum Biblíunnar á sinn hátt, á listrænan og faglegan hátt. Svo við hringdum í Poul Reymert og spurðum hvort að hann vildi lesa fyrir okkur. Það vildi hann mjög gjarnan“ segir hún.

Þegar Gurli lítur yfir liðinn tíma gleðst hún sérstaklega yfir þeim árum sem hún starfaði fyrir Sameinuðu biblíufélögin. Hún kynntist mörgu fólki í öllum heiminum og margir hafa verið vinir hennar síðan.

„Fulltrúar ólíkra landa kynntu sín verkefni og árangur af sínu starfi og það varð að vera gott samstarf á milli hugmyndavinnu og fjármögnunarleiða, erkibiskupinn af Kantaraborg, sem var forseti Sameinuðu biblíufélaganna til ársins 1976 bað alltaf þess að starf biblíufélaganna mættu vera opin fyrir heilögum anda, að þau mættu vera tilbúin til að uppgötva nýjar leiðir, með hugsjón fyrir starfinu en hafa báða fætur á jörðinni. Það er hægt að biðja slíkrar bænar í dag, fyrir öllum biblíufélögum í heiminum“ segir Gurli Vibe Jensen.