Biblían er dýrmæt bók og oft kölluð bók bókanna. Hún er líka kölluð hið lifandi orð. Ég hef oft upplifað það hvernig orðin sem ég les verða lifandi fyrir mér. Það er gott að lesa orðin í Matteusarguðspjalli 6 kafla, versi 28 – 30, þegar stressið og áhyggjur þessa lífs taka yfir.

„Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil“

 Við fáum að leggja allt líf okkar og ráð í Guðs hendur og ef við gerum það er kannski líklegt að við bregðumst allt öðruvísi við áhyggjum og kvíða en ef við ættum ekki Guðs kraft og von í öllum kringumstæðum lífsins

 Góð leið til að lesa reglulega í Biblíunni erað fylgja biblíulestraráætlun Biblíufélagsins. Það er gott að biðja áður en maður les, biðja Guð um að gefa manni skilning á efninu.

Það er gott vegarnesti inn í daginn að hefja hann með lestri Biblíunnar og fela hann í Guðs hendur.

„Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ Sálmur 119 vers 105.

Stefán Ingi Guðjónsson