Biblíufélagið í Noregi bauð framkvæmdastjóra Hins íslenska biblíufélags, Ragnhildi Ásgeirsdóttur í kynnisferð til Noregs nú í síðustu viku ágústsmánaðar. Norska Biblíufélagið styrkir starf Hins íslenska biblíufélags með fyrirbæn, fræðslu og fjármagni. Ragnhildur kynnti sér starfsemi norska Biblíufélagsins og Norðmenn tóku vel á móti henni.

Framkvæmdastjóri Hins norska Biblíufélags, Ingeborg Mongstad Kvammen, mun heimsækja Ísland nú í nóvember en einnig munu fleiri heimsækja landið okkar á næsta ári og bjóða upp á fræðslu m.a. Anne Kristin Aasmundtveit, en hún hefur sérhæft sig í hvernig á að fræða um Biblíuna á lifandi og skemmtilegan hátt bæði fyrir börn og fullorðna.
Norska Biblíufélagið var stofnað árið 1816 og er eitt stærsta Biblíufélag í heiminum í dag. Félagið styrkir fjárhagslega við mörg Biblíufélög út um allan heim og við hin ýmsu verkefni. Til dæmis tók norska Biblíufélagið þátt í að gefa öllum hermönnum i Úkraínu Biblíur, hefur stutt Biblíufélagið í Kína og á kúbu.
Það er margt líkt með hinu íslenska Biblíufélagi og hinu norska. Markmið félaganna er hið sama að útbreiða Biblíuna, stuðla að lestri og notkun hennar og vinna að því að Biblían verði enn sýnilegri og lifandi í samfélagi okkar.  Hið íslenska biblíufélag mun eiga náið samstarf við þessa góðu nágranna okkar um ókomna framtíð.