„Það ber vott um sjálfhverfu að prenta bara Biblíur fyrir sitt eigið land,“ sögðu fulltrúar annarra biblíufélaga við fulltrúa þess norska. Það var kveikjan að norskri útgáfu Biblíunnar í öðrum löndum,“ segir Georg Hille.

Georg Hille, 92 ára, er þekktastur fyrir að hafa verið biskup í Hamar á árunum 1974-1993. Áður hafði hann starfað fyrir norska biblíufélagið um þriggja ára skeið, frá 1951-1954. Hann fékk því að vera með í uppbyggingu og þróunar- aðstoð við erlend biblíufélög.

„Rekstur Biblíufélagsins var skelfing gamaldags rétt eftir stríðið,“ segir Hille.

Það eina sem þeir gerðu var að framleiða  og selja Biblíur og sálmabækur.  En árið 1950 kom fram maður sem nær enginn man eftir í dag, en hafði gríðarmikla þýðingu fyrir biblíustarfið: Það var Alf Hauge.

Á þessum tíma var Eivind Berggrav biskup formaður biblíufélagsins. Saman upplifðu þeir nokkuð sem hafði úrslitaáhrif fyrir upphaf  aðstoðarinnar erlendis.

— Berggrav og Hauge sóttu fund hjá Sameinuðu biblíufélögunum, samtökum sem þá voru nýstofnuð. Þar var fólk frá bresku, hollensku, skosku og amerísku biblíufélögunum.

— Berggrav og Hauge greindu frá því, hvernig reksturinn gekk fyrir sig í Noregi. Þá fengu þeir eftirfarandi svar: „Rekið þið félagið aðeins með prentun Biblía fyrir ykkar eigið land? Það ber vott um algjöra sjálfhverfu, þið hugsið aðeins um ykkur sjálf!“

— Þeir sneru heldur sneyptir heim, segir Hille.

— En þeir vildu ekki láta það óátalið að Hið norska biblíufélag hugsaði aðeins um eigin hag. Þeir voru því harðákveðnir í því að hefja þetta biblíustarf þegar að því kæmi.

Til þess að koma þessu í kring, þurftu þeir að gera tvennt: Þeir þurftu að fá kirkjurnar í Noregi til þess að gefa sig að útgáfu Biblíunnar í öðrum löndum á viðkomandi móðurmáli.  Á hinn bóginn þurftu norskir biblíuvinir að axla ábyrgð á starfi í ákveðnu landi.

Alf Hauge sagðist vilja fá Madagaskar, því að sá staður lá norskum trúboðsvinum þungt á hjarta. Og jafnvel þótt Bretarnir hefðu helst viljað ríghalda þeim stað, fengum við loks að taka við.

Hann vildi hefjast handa strax við biblíustarfið en það vantaði starfsfólk.
Þá hafði Alf samband við Georg Hille.

— Þá fékk ég bréf frá Alf Hauge með kall til starfa fyrir biblíufélagið. Hauge kallaði fólk til starfa, hann var þannig manngerð, skilurðu. Hann þekkti föður minn úr baráttu kirkjunnar á stríðsárunum og vissi hver ég var.
— Mikilvægasta verkefnið mitt fólst í því að ferðast um og hitta fólk og það var sá hluti starfsins sem mér þótti vænst um. Ég byrjaði á því að ferðast um á meðal safnaða í Osló, Heiðmörk og Upplöndum.

— Fyrst söfnuðum við peningum til verkefnisins með sölu Biblía og sálmabóka. Það byrjaði hægt en örugglega, en síðan komu föst framlög frá kirkjum og kirkjudeildum.

— Þegar að því kom að hefja starfið í Madagaskar og var það Odd Telle sem varð fyrir valinu.

— Alf Hauge hafði lengi velt því fyrir sér hvern hann ætti að senda til Madagaskar. Dag nokkurn hitti hann Odd Telle og sagði strax við hann: „Þú ert maðurinn, þú skalt fara til Madagaskar.“ „Þá verð ég fyrst að ræða við konuna mína,“ sagði þá Odd Telle.

—  Telle tókst það sem enginn hafði trúað að væri hægt. Á Madagaskar voru svo margar ólíkar kirkjur og kirkjudeildir, en honum tókst að sameina þær allar um sameiginlegt biblíufélag.

— Þegar Telle kom heim fékk hann það verkefni frá Sameinuðu biblíufélögunum að ferðast til biblíufélaga víðs vegar um Afríku og aðstoða þau við að takast á við ýmis vandamál.

„Telle var mjög duglegur maður og hann sinnti þessu verkefni í tíu ár. Nú er hann orðinn 93 ára gamall og er náinn vinur minn,“ segir Georg.

Að lokum — gæti Hille séð fyrir sér biblíufélag án biblíuútgáfu erlendis?

„Það væri leiðinlegt“, svarar Hille með áherslu, „þá væri bara félagið venjulegt bókaforlag. Síðan ég tók til starfa í biblíufélaginu þá hef ég verið dyggur vinur þess og mun styðja fjárhagslega við félagið þar til ég dey.“

„Ég hef verið upptekinn af svo mörgu — en þegar allt kemur til alls, er eiginlega ekkert sem jafnast á við Biblíuna. Hún er mikilvægust. Við erum í samtökum sem eru alveg miðlæg og nauðsynleg Guðs kirkju á jörðu.“