Biblíudagurinn verður haldinn hátíðlegur sunnudaginn 23. febrúar. Hið íslenska biblíufélag var stofnað þann 10. júlí árið 1815 og er því elsta starfandi félag á Íslandi. Það var Skotinn Ebenezer Henderson sem átti frumkvæði að stofnun félagsins en með hjálp og stuðningi Íslendinga.  Félagið var í höndum Íslendinga allt frá upphafi. Markmið félagsins er að vinna að útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar.  Biblían og boðskapur hennar hefur haft gríðarleg áhrif á menningu, gildi og sögu vestrænna þjóða.  Biblían birtir okkur hver Guð er, skapari, frelsari og hjálpari. Kjarninn í boðskap Biblíunnar er Jesús sem bendir á góðan, kærleiksríkan Guð.
Á Biblíudaginn erum við hvött til að minnast þess í öllum kirkjum, kirkjudeildum og kristnum söfnuðum landsins, að Biblían er trúarrit kristinna karla og kvenna og minna okkur á mikilvægi þess að styðja við útgáfu Biblíunnar um ókomna framtíð. Það er hægt að gera með bæn, sjálfboðaliðastarfi og fjárstuðningi. Á Biblíudaginn er gott tækifæri til að taka samskot til Biblíufélagsins í öllum kirkjum landsins.  Félagið er öllum opið sem vilja taka þátt í að stuðla að útbreiðslu Biblíunnar. Skráning í Biblíufélagið er í síma. Á heimsíðu félagsins er hægt að nálgast frekari upplýsingar um félagið.

Barnabiblían í Laos blessar fullorðna líka!

Papi hefur verið kristin í 9 ár, en nýlega tókst henni að lesa Biblíuna ein síns liðs, þökk sé barnabiblíunni.
Papi hefur nýtt sér barnabiblíuna til þess að læra að lesa.’Því miður, þá er ég mjög illa læs’ segir hún afsakandi þegar hún situr á gólfinu á skrifstofu biblíufélagsins í Vientiane í Laos og flettir barnabiblíunni.
Hin 57 ára Papi, sem í raun heitir Ken Hom, var alin upp af fátækri fjölskyldu sem ekki hafði ráð á að senda hana í skóla. Hún þurfti snemma, sem barn, að vinna fyrir sér og fjölskyldunni og þekkir í raun ekkert annað líf. Papi fékk vinnu hjá biblíufélaginu við þrif og þar sá hún börn lesa litríkar og fallegar barnabiblíur sem vöktu áhuga hennar á að læra að lesa. Fyrsta sagan sem hún las í Biblíunni var sagan af örkinni hans Nóa.
‘Ég skildi ekki allt, en ég sá myndirnar og þær hjálpuðu mér að skilja samhengið í sögunni’ segir Papi. Starfsfólk biblíufélagsins sá áhuga hennar og leitaðist við að aðstoða og kenna henni að lesa í hádegishléi sínu.
‘Það eru margir hér í Laos sem kunna ekki að lesa, hér eru bændur og verkafólk sem aldrei hafa fengið tækifæri til náms, en með barnabiblíunni geta börnin lesið sögur fyrir foreldra sína, myndirnar eru heillandi og þannig verður Biblían ekki bara blessun fyrir börnin heldur fyrir fullorðna líka’.