Henderson Biblían kom til Íslands árið 1814. Þá dreifði Ebeneser Henderson Biblíunni víðsvegar um landið, bæði Nýja testamentum og Biblíunni í heild í þúsundum eintaka  (rúmlega 6,600 eintökum af Nýja testamentinu og rúmlega 4 þúsund Biblíum). Þar með varð Biblían í fyrsta sinn almenningseign á Íslandi. Það er því enginn vafi að heimsókn Ebenezers Henderson markar tímamót í sögu íslenskrar kristni. Og í ár eru liðin 200 ár frá þessari mikilvægu heimsókn þessa mikla velgjörðarmanns okkar Íslendinga.  Um þetta má lesa í Ferðabók Hendersons sjálfs og sýna frásagnir þar hversu þakklátur almenningur var fyrir að eiga þess loks kost að eignast Biblíu. Þá kemur vel fram í bókinni hve biblíufróður Henderson var. Hann var stöðugt að heimfæra ákveðna ritningarstaði uppá það sem fyrir augum hans bar á Íslandi, hvort heldur voru þjóðhættir eða stórbrotin náttúru landsins. Ebeneser ritaði um ferðir sínar merka Ferðabók í tveimur bindum en sú bók kom út í Edinborg 1818 (önnur útgáfa 1819). Hún kom út á íslensku 1957 undir heitinu Ferðabók – frásagnir um ferðalög um þvert og endilangt Ísland árin 1814 og 1815 með vetursetu í Reykjavík en það var  Snæbjörn Jónsson sem þýddi.

Nú á þessu vori verður hægt að nálgast nýja BA-ritgerð eftir Sigfús Jónasson stud. theol.  sem var skrifuð undir  handleiðslu Dr. Gunnlaugs A. Jónssonar prófessors um áhugavert efni sem tengist notkun Ebeneser á Gamla testamentinu í ferðabók hans en hún ber heitið: „Gullni ljóminn í norðri. Notkun Ebenezer Henderson á Gamla testamentinu í ferðabók sinni.“