Þann 13. janúar verður opnuð ljósmyndasýning í Ljósmyndasafni Reykjavíkur/Skotinu sem ber yfirskriftina „Ljós réttlátra…“ Er þar um að ræða sýningu Karls R. Lillendahl á svarthvítum ljósmyndum. Þær voru teknar á Austurvelli 15. nóvember 2008 þar sem fjölmenn mótmælí áttu sér stað í kjölfar bankahrunsins. Mótmælendur kölluðu eftir gömlum gildum sem þeir töldu að sett hefðu verið til hliðar.

Undir myndunum eru setningar úr Orðskviðum Salómons þar sem hugtök á borð við viska, réttlæti, agi og réttvísi koma fyrir. Setningarnar telur listamaðurinn að eigi vel við viðfangsefni sitt og eiga við það andrúmsloft sem ríkti á Austurvelli þennan nóvemberdag.

Sýningin opnar 13. janúar og stendur til 9. mars.